Friday, October 24, 2008

7–Voru ofurlaunin möguleg vegna þess að bankamennirnir selja Íslendingum a.m.k. þrefalt dýrari lán heldur en viðskiptavinum sínum erlendis?

7.hluti — "Hin glæsta útrás" í íslenskum fjölmiðlum.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.
....................
Á ári hverju þegar skattskráin er birt, rekur fólk í rogastans þegar það sér að íslenskir bankamenn eru með mörg hundruð milljónir í árstekjur. Eitt andartak, eitt brot úr sekúndu tengja menn það við að lánin á Íslandi eru að minnsta kosti þrefallt dýrari en í nágrannalöndunum.

En strax fara að birtast í fjölmiðlum lofgreinar um hversu snjallir íslenskir bankamenn eru, og hversu miklum árangri þeir eru að ná og að þeir eigi þessi laun þess vegna fyllilega skilið.

En ef við yfirgefum um stund glansmyndina sem dregin er upp af bankamönnunum í þeirra eigin fjölmiðlum, og lítum þess í stað á beinharðar tölur frá Seðlabankanum þá birtist allt önnur og dekkri mynd:

Slóðin á heimasíðu Seðlabankans hér að ofan er m.a. inn á skýrsluna: Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur eftir Daníel Svavarsson og Pétur Örn Sigurðsson.

Þar getur að lesa orðrétt: Í Bretlandi, líkt og á Íslandi hafa bæði skuldir og eignir þjóðarbúsins vaxið gífurlega á undanförnum árum.

Þrátt fyrir þrálátan viðskiptahalla hefur hrein erlend staða ekki versnað. Skýringin er að ávöxtun erlendra eigna Breta hefur að meðaltali verið 2% hærri en ávöxtun erlendra skulda í Bretlandi. Á Íslandi hefur einnig verið gífurlegur vöxtur í erlendum eignum og skuldum.

Hér hefur hins vegar orðið mikil versnun á erlendri skuldastöðu sem skýrist aðallega af því að íslenskir fjármálamenn hafa ekki kunnað að ávaxta fé sitt erlendis í sama mæli og Bretar. (Einhverra vegna hefur þessi staðreynd ekki ratað í íslenska fjölmiðla). Á meðan viðskiptavit breskra fjármálamanna í erlendum fjárfestingum vegur upp breska viðskiptahallann, þá sýnir mynd 9 í áðurnefndri skýrslu að hrein íslensk eignarstaða versnar hraðar en íslenski viðskiptahallinn.

Ennfremur segir orðrétt í skýrslunni: Bein fjárfesting Bandaríkjamanna erlendis skilar rúmlega tvöfallt hærri ávöxtun en beinar fjárfestingar erlendra aðila í Bandaríkjunum. En hversu miklu hærri ávöxtun skila fjárfestingar íslendinga erlendis miðað við fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi? Áðurnefnd skýrsla svarar því: Meðalávöxtun beinna fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi var 32,4% árið 2004, 31% 2005 og 23,2% 2006. Meðalávöxtun af beinni fjárfestingu íslenskra aðila erlendis var á sama tíma 7,6%, 13,5% og 9,9% eða u.þ.b. þriðjungur.

Með öðrum orðum, á meðan meðal bandarískur fjárfestir nær helmingi hærri ávöxtun erlendis en erlendir fjárfestar ná í heimalandi hans, nær íslenskur fjárfestir erlendis aðeins einum þriðja af þeirri ávöxtum sem erlendir aðilar ná í hans heimalandi.

Sé þessi mælikvarði notaður (2/1 : 1/3) sést að íslenskir fjármálamenn hafa að meðaltali einn sjötta af viðskiptaviti Bandaríkjamanna.

Réttlætir það ofurlaun bankastjóranna?

Eða eru ofurlaun tilkomin vegna þess að bankamennirnir selja Íslendingum a.m.k. þrefalt dýrari lán heldur en viðskiptavinum sínum erlendis?
Andrés Magnússon, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

No comments: