Wednesday, October 22, 2008

Herfilegustu mistök við hagstjórn sem gerð hefur verið frá upphafi lýðveldisins

Gunnar Tómasson
22. október, 2008 kl. 19.11 [eyjan.is]

Árið 1983, ef ég man rétt, var vísitölutrygging launa afnumin með lögum en ekki var hreyft við verðtryggingu lána launþega og annarra. Nokkru síðar hitti ég Albert Guðmundsson þáverandi fjármálaráðherra að máli og spurði hvers vegna verðtrygging lána hefði ekki verið afnumin. Albert sagði að ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hefðu sagt að það væri ekki hægt þar sem verðtrygging lána væri samningsbundin. Líkt og vísitölutrygging launa!

Ég starfaði sem hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á þessum árum. Daginn sem frétt um afnám vísitölutryggingar laun og áframhaldandi verðtryggingu lána kom inn á skrifborð mitt tók ég fram blað og penna og skrifaði bréf til vinar míns Styrmis Gunnarssonar.

Í bréfinu lýsti ég þessum aðgerðum stjórnvalda sem herfilegustu mistökum við hagstjórn sem gerð höfðu verið frá upphafi lýðveldisins. Hér væri tjaldað til einnar nætur eins og myndi síðar koma í ljós.

Verðtrygging er nefnilega skálkaskjól stjórnvalda sem hafa hvorki haft vilja eða getu til að stjórna peningamálum Íslands. Stjórnvalda sem létu það viðgangast að útlán lánakerfisins jukust um 3450% (þetta er ekki ritvilla) áratuginn 1970-1979 og um nánast sama hlutfall á árunum 1980-1989.

Á síðustu 25 árum hefur lífeyrissjóðakerfi landsmanna dafnað í skálkaskjóli stjórnvalda en útlán hafa haldið áfram að vaxa með margföldum vaxtarhraða þjóðarframleiðslu.

Verðtryggingin tryggir það eitt að greiðslubyrði lífeyrissjóðs- og bankalána hafa vaxið í takt við útlánaþensluna en ekki í takt við vöxt þjóðarframleiðslu og rauntekna launþega.

Vitaskuld gat það ekki gengið til lengdar - hvað var þá til ráða?

Jú, verðbótum var bætt við höfuðstól lána - lausn vandans var skotið á frest en launþegum/lántakendum bundinn skuldabaggi sem nú er við það að kollkeyra fjárhagslega stöðu þúsunda heimila.

No comments: