Thursday, December 18, 2008

Okurvaxtastefna og spilling í bankakerfinu er ekki okkur að kenna.

(af vef http://vald.org]

Hvað segir það um okkur sem manneskjur og hvers konar félagslegt réttlæti er það að gera þúsundir einstaklinga sem skulda verðtryggð lán eignalausa á einni svipstundu. Og stela þannig afrakstri margra ára vinnu af þessu fólki? Þetta er gert á sama tíma og varla er hróflað við þeim sem rústuðu öllu kerfinu. Fólkið sem á undanförnum árum hefur verið að kaupa allt of dýrt húsnæði – þökk sé m.a. verðtryggingunni sem stórhækkar allt fasteignaverð — og hefur unnið myrkranna á milli, á enga sök á gengisfellingum, okurvaxtastefnu eða spillingu í bankakerfinu. Nú á að leysa efnahagsvandan m.a. með því að leiða þennan hóp í sláturhús.
....
Framtíð Íslands er ekki björt ef yngsta kynslóð húsnæðiskaupenda verður látin taka á sig stærri skell en aðrir. Réttlát reiði eitrar þá út frá sér í samfélaginu og mikill landsflótti liggur í loftinu. Eru stjórnmálamenn landsins virkilega svo kaldrifjaðir að þeir láti þetta gerast eða eru þeir bara steinrunnin nátttröll sem stara út í tómið. Það verður að afnema verðtrygginguna strax.
...
meira sjá http://vald.org

Wednesday, December 17, 2008

Húsnæði á Íslandi verðmetið á 40–50% af upphæð áhvílandi lána eftir ca. eitt ár.

Eftir ca 24 mánuði munum við sjá að 70% af öllu húsnæði á íslandi verður verðmetið á ca 40 til 50% af upphæð áhvílandi lána.

Sjá bloggsíðu Vésteins Gauta

Sunday, December 14, 2008

Af hverju er ekki virkur húsaleigumarkaður á Íslandi eins og á hinum Norðurlöndunum?

Af hverju þarf ungt fólk sem stofnar fjölskyldu að byrja á því að skuldbinda sig til íbúðakaupa og vinna síðan ótæpilega á meðan börnin eru lítil og þurfa á foreldrum sínum óþreyttum að halda?

Af hverju er ekki virkur húsaleigumarkaður á Íslandi eins og á hinum Norðurlöndunum?
Séreignastefnan hér á landi var undirritað samkomulag á milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar. Ákveðið var að allir eiga að kaupa íbúð. Líka sá hluti launafólks, sem margt ræður ekki við íbúðakaup, þ.e. ef eitthvað kemur uppá: veikindi, flutningur á milli landshluta, aðrar breytingar og á aldrei varasjóði til að grípa í.
Margir einstaklingar fara í gjaldþrot, bara vegna þess að þeir réðu ekki við að kaupa íbúð.

Sannleikurinn um verðtryggingu lána á mannamáli

Magnús Þór í Silfri Egils með frábærar skýringar á verðtryggingunni. (Rúv, sunnudagur 14.des–úrklippa af bloggi Láru Hönnu).

Sunday, December 07, 2008

Verkalýðshreyfingin vill viðhalda verðtryggingu lána

Verkalýðshreyfingin vill viðhalda verðtryggingu lána til að lífeyrissjóðirnir haldi verðgildi sínu.
Nú er verið að etja hagsmunum gamla fólksins, sem fær lífeyri sinn úr sjóðunum, á móti unga fólkinu, sem þarf lán til að koma þaki yfir höfuðið.
Fyrir unga fólkið eru verkalýðsfélögin orlofshúsaleigumiðlun. Ungt fólk greiðir lögbundin félagsgjöld í verkalýðsfélög nema búið sé að hrekja það í verktöku. Ótrúlega há prósenta af öllum launum í landinu fara til lífeyrissjóðanna og verkalýðsfélaganna.

Lausn verkalýðsleiðtoganna er að aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu muni bjarga okkur frá verðtryggingunni.
Verkalýðshreyfingin er ekki lýðræðisleg hreyfing. Þegar forseti ASÍ lýsir því yfir að ASÍ vilja fara í ESB er hann að segja fólkinu að það viti ekkert, þurfi ekki upplýsingar og eigi að elta ASÍ sem eltir Samfylkinguna.

Leiðtogarnir eru hámenntaðir og kerfið sem þeir styðja heldur þeim við völd (á háum launum). Og ef Ísland fer í Evrópusambandið þá verða verkalýðsforingjarnir á enn fleiri fundum erlendis og það virðist vera það sem allir sækja í.

Af hverju pössuðu stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum ekki betur upp á peningana okkar? Af hverju eigum við að treysta þessum sömu mönnum fyrir sjóðunum okkar?

Wednesday, December 03, 2008

Þú græðir ef þú hættir að borga?

Frábær lýsing á því hvað gerist ef þú hættir að borga verðtryggða lánið.

í Kastljósi hér

Valdið liggur hjá skuldurum

Uppreisn gegn lánardrottnum
[jonas.is]
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur reyndist sannspár um hrunið. Einn af mörgum, sem ekki var hlustað á. Nú ráðleggur hann skuldugum að spyrna við fótum. "Það er fráleitt að halda áfram að borga", segir hann í viðtali við DV í dag. Vegna verðtryggingar er 18 milljóna lán komið upp í 24 milljónir króna. Fólk hefur ekkert gert til að verðskulda slíkt. Guðmundur bendir í blaðinu á leiðir til að hætta að borga af lánum, sem fyrirsjáanlega sliga fólk. Fólk á að leggja peninga sína inn á reikning í stað þess að borga Íbúðalánasjóði eða banka. Fólk lifir ekki nema það geri fjárhagslega uppreisn gegn kerfinu.

Hættið að borga af lánunum
[dv.is]

„Það er fráleitt að halda áfram að borga,“ segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur um stöðu þess fólks sem á í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðislána. Hann segir að fólk eigi í öllu tilliti að fara til skuldareigandans, oftast Íbúðalánasjóðs eða bankanna, og spyrja þá hvað sé til ráða þegar fólk ræður ekki við greiðslurnar.

Guðmundur segir að allur sá fjöldi fólks sem er í þessum sporum eigi aðeins einn kost. „Hann er þá að segja einfaldlega; „Við borgum ekki“ enda er ekkert annað í boði. Það segir sig sjálft,“ segir hann.

Í DV í dag kemur fram hvernig hægt er að hætta að borga af lánum, sem munu fyrirsjáanlega sliga mann, og safna peningunum í staðinn inn á reikning. Íbúðalánasjóður getur ekki gengið að fénu og því getur fólk notað féð til að koma undir sig fótunum á ný, til dæmis á leigumarkaði. Þetta hefur þó sína ókosti, en enga umfram þá sem mæta fólki þegar það loksins fer í þrot vegna lánanna.

Verðtrygging húsnæðislána gerir það að verkum að sá sem tók 18 milljóna króna lán í fyrra stendur frammi fyrir því undir lok næsta árs að skulda 24 milljónir króna, þrátt fyrir að hafa ekkert gert rangt. Því hefur hópur fólks ákveðið að hætta að borga af lánunum, í ljósi þess að verðtryggingin sé bæði í senn sligandi og óréttlát.

Sjá nánar í DV-pappírsútgáfu
------
Sjá einnig grein Sverrir Jakobssonar [úrdráttur]:

Íslenskt hagkerfi stendur og fellur með því að almenningur greiði skuldir sínar og fari ekki í gjaldþrot

Hagkerfi sem leyfir verðtryggingu lána getur ekki talist frjálst eða á nokkurn hátt eðlilegt.

Verðtryggingin er böl
[af vald.org]
Vaxtaþrælar

Hagkerfi sem leyfir verðtryggingu lána getur ekki talist frjálst eða á nokkurn hátt eðlilegt. Eins og alltaf þegar menn búa til annarlegar lausnir þá láta slæmar afleiðingar ekki á sér standa.

Verðtryggingin átti stóran þátt í að fasteignaverð hækkaði allt of ört árum saman. Verðtryggingin gerði bankakerfinu kleift að spila með gengi íslensku krónunnar fyrr á þessu ári. Þetta glæpsamlega hringl með krónuna gróf undan trausti landsins á erlendum peningamörkuðum og átti sinn þátt í að kerfið loks hrundi.

..........

Verðtryggingin er byggð á röngum forsendum vegna þess að hún kemur í veg fyrir að framboð og eftirspurn lækki eða hækki vexti þegar það á að gerast. Hún felur raunverulegan kostnað og eykur greiðslubyrðina þegar spurt er að leikslokum. Þetta er auglýst sem eitthvað gustukaverk en þjónar aðeins okurlánurum.

Tuesday, December 02, 2008

Íslenskt hagkerfi stendur og fellur með því að almenningur greiði skuldir sínar og fari ekki í gjaldþrot

Í Fréttablaðinu í dag, þriðjudaginn 2.desember lýsir Sverrir Jakobsson á mannamáli því um hvað málið snýst:

[bls. 16—úrdráttur–greinarskil bloggara]
  • Þenslu fjármálakerfisins fylgdi svo önnur bóla; þensla íbúðaverðs sem af séríslenskum aðstæðum varð einkum á höfuðborgarsvæðinu. Undir hana var ýtt af fjármálastofnunum sem vildu sölsa undir sig þessa starfsemi og fjármagna þar með enn meiri útrás. Stjórnmálamenn ýttu undir þensluna með loforðum um hærri lán til fasteignakaupa sem höfðu í för með sér offjárfestingar í húsnæði.

  • Íslensk heimili urðu skuldsettari en þekkist víðast hvar annars staðar og þunginn af kreppunni fellur nú einkum á heimilin.

  • Samt eru úrræði stjórnvalda nú á krepputímum þau sömu og á fyrri þenslutímum - að hækka vexti á skuldsetta þjóð.

  • Undir eðlilegum kringumstæðum ættu slíkar ráðstafanir að leiða til fjöldagjaldþrota en ríkisvaldið mun ekki leyfa það; gangvirki íslensks efnahagslífs hvílir á þeirri forsendu að fólk borgi skuldir sínar og í því skyni má fresta greiðslum og grípa til allra mögulegra ráðstafana annarra en að lækka vexti eða setja fólk á hausinn.

  • Íslenskt hagkerfi stendur og fellur með því að almenningur greiði skuldir sínar þó að einkabönkunum hafi verið leyft að fara í gjaldþrot, fá nýjar kennitölur og vera lausir allra mála.