Friday, October 24, 2008

3–Fréttastjórarnir láta aldrei taka upp beinskeytta umræðu um vaxtaáþjánina

3.hluti — Umræðu haldið frá þjóðinni

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræðu um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
....................
En það sem er svo sérstaklega sárt við þetta er að það er nánast engin umræða um þessa áþján. Það er kannske ekkert undarlegt þegar þess er gætt að afar fáir aðilar ráða fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi, og þessir aðilar eru nátengdir fjármálalífi landsins.

Hví ættu þeir að skrifa neikvætt um viðskiptalífið sitt, það myndi kannske leiða til þess að hlutabréfaverð lækkaði eða að almenningur myndi ekki samþykkja að borga hina háu bankavexti sem er undirstaða “hinnar glæstu útrásar”? Enda líkjast sum íslensk viðskiptablöðin fyrst og fremst auglýsingabæklingum þar sem engin gagnrýnin umræða fer fram. Dæmigerð grein er t.d. að fulltrúar bankanna skrifi greinar um að vextir þurfi áfram að vera háir og að við komumst ekki af án verðtrygginga o.s.fr.

Þó að einstaka óbreyttur Íslendingur reyni að fá birta aðsenda grein um þessi mál, þá mega stöku pistlar sín lítils.

Ritstjórar og fréttastjórar ráða yfir herskara af blaðamönnum og fréttamönnum, aðsendu greinarnar drukkna vegna þess að ritstjórarnir og fréttastjórarnir láta aldrei taka upp beinskeytta umræðu um vaxtaáþjánina, beina kastljósinu aldrei að vaxtareinokunaraðstöðu bankanna.

Og það sem meira er, háskólamenn í viðskiptafræðideildum, hagfræði og víðar taka heldur ekki upp neina gagnrýna umræðu um þessa vaxtaáþján, þetta séríslenska ok á herðum almennings. Þeir eru uppteknir við að upplýsa almenning um alla þá hagsæld sem hlýst af hinni glæstu útrás.


Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í nokkrum hlutum.

No comments: