Friday, October 24, 2008

4–Hvenær birtast viðtöl við fólk sem borgar stóran hluta af höfuðstól lánsins á hverju ári en lánið minnkar aldrei?

4.hluti — Umræðu haldið frá þjóðinni

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræða um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
....................
Hvenær birtast viðtöl í fjölmiðlum við venjulega launþega sem hafa orðið gjaldþrota? Hvenær eru birt viðtöl við fólk sem hefur verið að borga stóran hluta af höfuðstól lánsins á hverju ári en lánið minnkar samt ekkert?

Hvenær er kastljósinu beint að blessuðu börnunum sem nánast aldrei sjá foreldrana sína því þeir þurfa að vinna geysilega yfirvinnu til þess að borga af húsnæðislánunum? Slíkar fréttir birtast margfallt sjaldnar heldur en viðtöl við forstöðumenn greiningadeilda bankanna.

Samt eru þessir venjulegu Íslendingar þúsund sinnum fleiri heldur en bankamennirnir sem sífellt eru teiknaðir upp sem hetjur í fjölmiðlunum. Þótt að ofsagróði þeirra sé bara tilkominn af því að bjóða Íslendingum hér þrefalt hærri vexti heldur en þeir bjóða viðskiptavinum sínum erlendis.

Þess ber að geta að vegna þess hversu íslensku bankarnir eru hæfir og traustir, þá fá þeir fjármagnið fyrir útlánunum sínum á sömu kjörum og erlendu bankarnir, þannig að þeir ættu að geta lánað á sömu kjörum en ekki þrefalt dýrara. Ef þeir hefðu þurft að fá lánin sín á dýrari kjörum en erlendir bankar þá væru hvorki bankarnir þeirra traustir né bankastjórarnir snjallir.

Af þessu sést að upplýsingum og umræðu um grafalvarlegt þjóðfélagsmein er haldið frá þjóðinni.


Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin verður birt í nokkrum hlutum.

No comments: