Friday, October 31, 2008

Alvarlegir fjárhagserfiðleikar hjá 14.000 Íslendingum fyrir bankahrun. Hver er talan í dag?

Hartnær fjórtán þúsund Íslendingar eru í alvarlegum fjárhagserfiðleikum.
Einstæðir feður eru mun líklegri til að lenda í vanskilum en einstæðar mæður en langfjölmennasti hópur þeirrra sem eru á vanskilaskrá eru barnlausir karlmenn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Creditinfo Ísland.

Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu hefur Creditinfo, fyrirtæki sem heldur utan um vanskil landsmanna, tekið saman vanskilastöðu fólks og fjölskyldna í landinu. Það skal tekið fram að þeir sem lent hafa í erfiðleikum eftir bankahrunið hafa enn ekki ratað inn á vanskilaskrá. Hins vegar hefur fólki í vanskilum fjölgað verulega á þessu ári, þrjátíu prósent fleiri hafa lent á vanskilaskrá fyrstu níu mánuði ársins, miðað við allt árið í fyrra.

Það kemur líklega fæstum á óvart að flestir á vanskilaskrá eru með mánaðartekjur undir 250 þúsund krónum eða upp undir helmingur. En það eru einhleypar konur sem flestar ná endum saman, aðeins 3,8 prósent þeirra eru í vanskilum.

Staða þeirra snarversnar þegar þær eru komnar með börn og eru einstæðar, en 13,4 prósent einstæðra mæðra eru í vanskilum. Einstæðir feður eiga enn erfiðara með að standa í skilum því 18,4 prósent þeirra eru á vanskilaskrá. Stærsti hópurinn á skránni, eru einhleypir karlmenn, rösklega 6600 þeirra er í vanskilum, eða 11,7 prósent allra einhleypra karlmanna. Þá eru fimm prósent barnlausra para í hjónabandi eða sambúð í vanskilum og 6,9 prósent para með börn.

[visir.is]

1 comment:

Pókerklúbburinn said...

Creditinfo er ægilegt fyrirtæki og ætti að vera bannað, ég er á vanskilaskrá því að einhver skráði mig á námskeið hjá Endurmenntun Háskólans, ég hringdi og sagði að það hlytu að vera mistök, þeir neituðu því og settu mig á vanskilaskrá, og ég neita að greiða þetta, en eina góða í þessu er það að bankarnir vildu ekki gefa mér yfirdrátt þar sem ég var á vanskilaskrá þannig að ég kem betur út úr kreppunni heldur en margur