Friday, October 24, 2008

5–Íslenskir bankamenn öðrum þjóðum fremri þó lítil sem engin hefð eða þekking hafi verið á alþjólegri bankastarfsemi á Íslandi

5.hluti — Fjölmiðlar mæra bankana.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.

....................
Þó svo að meðal fjölskylda á Íslandi þurfi að auka tekjur sínar um allt að þremur milljónum á ári til þess að brúa muninn á því sem greiða þarf fyrir íbúðarlán á Íslandi miðað við útlönd, ríkir samt ekki mikil gremja út í íslensku bankana.

Það er ekki bara vegna þess að umræðan um vaxtamuninn milli Íslands og útlanda kemst aldrei í hámæli í fjölmiðlum, heldur ekki síður vegna þess að stöðugum, þungum straumi af jákvæðri umfjöllun um bankana er haldið að íslenskum almenningi. Gildishlaðin orð eins og “Íslenska efnahagsundrið”, “Efnahagsæfintýrið”, “Hin glæsta íslenska Útrás” o.s.frv. eru notuð í allri umfjöllun um hina íslensku banka.

Stöðug viðtöl birtast við forstöðumenn bankanna þar sem þeir mæra eigin störf, og segjast leiða mikla búsæld yfir alla þjóðina. “Íslendingar hasla sér nú stöðugt völl erlendis”, “yfirtaka íslendinga á erlendum fyrirtækjum…”, “ótrúlegur árangur íslenskra ……” er það sem sífellt heyrist í fjölmiðlum; og við fyllumst þjóðarstolti.

Stöðugt er endurtekið að bankarnir séu mikill búhnykkur fyrir þjóðarbúið og allan almenning. Og þegar berast fréttir af því að tveir af framámönnum bankanna hafi verið með einn og hálfan milljarð í árstekjur, þá er það aldrei tengt því að auðvitað myndast gífurlegur gróði við hina himinháu séríslensku bankavexti, heldur eru dregnar upp glæsimyndir af bankastjórunum í fjölmiðlunum. Íslenskir bankamenn eru eins konar ofurmenni, og við þessir venjulegu Íslendingar viljum trúa því vegna þess að undir niðri er jú skýringin á snilli bankamannanna sú að þeir eru Íslendingar. Og við sjálfir erum líka Íslendingar.

Mörgum hefur gengið erfiðlega að skilja hvers vegna einmitt íslenskir bankamenn séu öðrum þjóðum fremri þar sem lítil sem engin hefð eða þekking hefur verið á alþjólegri bankastarfsemi á Íslandi.

Fjölmiðlar segja okkur að skýringin sé sú að boðleiðir eru hafðar svo stuttar og greiðar hjá íslenskum bankamönnum.

Þá vaknar spurningin hvers vegna aðrir bankar taka ekki upp þennan hátt líka fyrst hann er auðsjáanlega svo miklu fremri. Það er jú eðli alls einkareksturs að þær aðferðir sem ganga best og skila mestum árangri eru strax teknar upp af öðrum.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í 5 prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin verður birt í nokkrum hlutum.

No comments: