Friday, October 24, 2008

9–Aðeins þriðjungur Íslendinga, sem nú eru að borga af lánum sínum, væru ennþá með húsnæðislán ef vextir í landinu hefðu verið eðlilegir

9. hluti—Fögur er hlíðin.


3. Búin eru til mjög gildishlaðin orð og hugtök sem koma í veg fyrir gagnrýna hugsun og spurningar.

....................
Einn þáttur í áróðursstríði ráðandi aðila til þess að almenningur sætti sig við mannréttindabrot er að búa til ný orð, hugtök og frasa.

Þeir eru hannaðir til þess að réttlæta og kæfa niður andóf og gagnrýna hugsun. Þetta er best þekkt í stríðsáróðri, en kemur fyrir miklu víðar.

Úr samtímanum er t.d. þekkt: “Weapons of mass destruction”, “Axis of evel” og “War on terror”.

Sambærileg orð úr íslenskum samtíma eru: “Íslenska efnahagsundrið”, “Íslenska Efnahagsæfintýrið”, “Hin glæsta íslenska Útrás”, “yfirtaka Íslendinga á erlendum fyrirtækjum” og fleiri. Sérlega áhrifamikið er að höfða til þjóðerniskenndar, enda fékk Gunnar syndafyrirgefningu í 1000 ár fyrir yfirganginn, samningsrofin og lögleysuna með hinum hnitmiðuðu orðum: “Fögur er hlíðin….”

Eins og sýnt var fram á í fyrri hluta þessarar greinar þá eiga orð eins og “Útrás” og “Efnahagsundur” engan rétt á sér, þau eru hreinn skáldskapur.

En þegar þessi orð eru endurtekin nógu oft þá fær þjóðin á tilfinninguna að allt leiki í lyndi og að ekkert sé að íslenska bankakerfinu. Blákaldar staðreyndirnar falla í skuggann en þær eru: Ef Íslendingar hefðu haft sambærileg lánakjör og nágrannaþjóðirnar væru tveir þriðju hluti þeirra búnir að greiða upp lánin sín að fullu með núverandi greiðslubyrði.

Með öðrum orðum; aðeins þriðjungur þeirra íslendinga sem nú eru að borga af lánum sínum væru ennþá með húsnæðislán ef vextir í landinu hefðu verið eðlilegir.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

No comments: