Friday, October 24, 2008

11–Jón forseti trúði því að ef Íslendingar eignuðust háskóla og menntað fólk, þá yrði ekki hægt að selja vörur þrefalt dýrara á Íslandi en í Danmörku

11. Hví er engin umræða í fjölmiðlafræðum og blaðamannafélaginu?


5. Niðurstaða og spurningar
....................
Niðurstaðan af því sem hér hefur verið ritað, og sundurgreint í tölulið 1 til 4, er að alvarlegt þjóðarmein, vaxtaáþján, er látið viðgangast.

En hið grafalvarlega í þessu máli er að meininu er viðhaldið með aðferðum sem benda til þess að veruleg brotalöm sé á íslensku lýðræði, nefnilega skortur á upplýsingum og umræðu.

Eftirtöldum spurningum þarf að svara:

1. Á fyrri hluta tíunda áratugarins, þegar bankar voru einkavæddir, varð gífurleg lækkun á vöxtum í Evrópu, fara þurfti 100 ár aftur í tímann til þess að finna jafn lága vexti. Á sama tíma varð sáralítil vaxtalækkun á Íslandi. Hvers vegna hækkuðu vextir hlutfallslega svo mjög á Íslandi miðað við önnur lönd á þessum tíma?
----------
2. Yfirleitt eru hugsjónafélög lögð niður eða róttækt breytt þegar þau hafa ekki lengur neitt hlutverk og/eða þegar reksturinn gengur illa. Þessi skilyrði voru ekki til staðar þegar Sparisjóðirnir voru einkavæddir. Þvert á móti gékk rekstur þeirra sérdeilis vel, og hlutverk þeirra hafði aldrei verið mikilvægara þar sem bankavextir voru óviðráðanlega háir og sparisjóðirnir gátu lánað á lægri vöxtum (vegna þess að það var mikill tekjuafgangur á rekstri þeirra).
3. Hvað hefur orðið af margboðuðum útreikningunum hagfræðideildar H.Í. af þjóðhagslegum ávinningi útrásarinnar?
----------
4. Hví hafa tölurnar frá Seðlabankanum um stöðuga versnun eignarstöðu Íslands aldrei náð inn í fjölmiðla en sífellt er þjóðinni talin trú um að íslendingar séu að eignast verðmæti erlendis? Hví er engin umræða í fjölmiðlafræðum og blaðamannafélaginu um hvort eignarhald fjölmiðlanna hafi áhrif á skrif um fjármál og vaxtamál?
----------
5. Hver er kostnaður almennings af að hafa íslensku krónuna? Hvað myndi sparast ef almenningur fengi greitt í evrum og hægt væri að taka evrulán án gengisáhættu? Hvað myndi sparast með aukinni verðsamkeppni erlendis frá- og aukinni verðvitund ef evran yrði tekin upp? Hver er hagstjórnarmáttur krónunnar, hver er ágóðinn við að hafa hana og hví er ekki reynt að setja þessar stærðir inn í reiknilíkan?
----------
6. Nú hefur gífurlegum eignum verið komið á fáar hendur á Íslandi, og samkvæmt frjálshyggjukenningum á það að leiða til aukinnar hagsældar alls almennings. Hafa þessar kenningar reynst réttar? Hvað hafa ráðstöfunartekjur aukist mikið þegar tekið hefur verið tillit til greiðslubyrði vegna ofurvaxtanna íslensku?

Tveir dánumenn hefðu orðið verulega vonsviknir ef þeir hefðu frétt af framistöðu Háskólanna á Íslandi í þessum málum, en það eru þeir félagarnir Platón og Jón Sigurðsson. Platón, stofnandi háskóla, var á móti mötun, en hvatti til umræðu og sjálfstæðrar hugsunar. Jón Sigurðsson var á móti verslunareinokun og því að miklu hærra verð þyrfti að greiða fyrir vörur á Íslandi en í Danmörku. Hann trúði því að ef Íslendingar eignuðust eigin háskóla og vel menntað fólk, þá yrði ekki hægt að selja vörur einsog lán þrefalt dýrara á Íslandi en í nágrannalöndunum.

En þar skjátlaðist honum. Menntunarstig þjóðarinnar virðist vera þannig að árum saman er hugmyndin um “Útrás” tuggð upp án þess að nokkur maður, hagfræðingur, fjölmiðlafræðingur, stjórnmálafræðingur, lögfræðingur eða viðskiptafræðingur, hirði um að kanna frumheimildirnar hjá Seðlabanka eða Hagstofu.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í 5 prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

1 comment:

Anonymous said...

Jón kann að hafa haft rétt fyrir sér, vandinn er að skólar okkar skila ekki menntuðu fólki, heldur starfsmenntuðu.