Monday, November 03, 2008

Réttaraðstoð [fyrir einstaklinga] að leita nauðasamninga

Markmið nauðasamninga [einstaklinga] er að ráða bót á ógjaldfærni skuldara og þá einkum með því að lækka skuldir svo bæði verði jafnvægi milli þeirra og eigna til að skuldari verði frekar fær um að standa í skilum.

Upplýsingar um réttaraðstoð til að leita nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 65/1996 og leiðbeiningar með umsókn
(smellið hér)
(á vef dómsmálaráðuneytis)

I.Réttaraðstoð [fyrir einstaklinga] að leita nauðasamninga.
Lög um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga, nr. 54/1996 tóku gildi 1. júlí 1996. Samkvæmt lögunum getur dómsmálaráðherra veitt einstaklingum réttaraðstoð í formi fjárhagsstuðnings til að standa straum af kostnaði við að koma á nauðasamningi. Réttaraðstoðin tekur til kostnaðar af aðstoð við að leita nauðasamnings ásamt tryggingu fyrir kostnaði við undirbúning og gerð nauðasamnings. Réttaraðstoðin getur þó ekki numið hærri fjárhæð samanlagt en 250.000 krónum handa hverjum umsækjanda (miðað við vísitölu neysluverðs í febrúar 1995, 174,9 stig)

II. Almennt um nauðasamninga.
Nauðasamningur er samningur um greiðslu skulda eða eftirgjöf á þeim, sem kemst á milli skuldara og nauðsynlegs meirihluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Markmið nauðasamnings er að ráða bót á ógjaldfærni skuldara og þá einkum með því að lækka skuldir svo bæði verði jafnvægi milli þeirra og eigna til að skuldari verði frekar fær um að standa í skilum, eða með því að lengja gjaldfrest eða breyta á annan hátt greiðslukjörum. Um nauðasamninga fer skv. ákvæðum gjaldþrotalaga, laga nr. 21/1991. Ákvæði gjaldþrotalaga fela í sér að skuldari þarf að afla heimildar dómstóls til að leita slíks samnings, sem er veitt með dómsúrskurði. Samningsumleitanir sem taka við í kjölfarið eru í höndum sérstaks umsjónarmanns, sem er skipaður af dómstólnum um leið og heimildin er veitt.

No comments: