Monday, November 03, 2008

Bönkunum, ríkisstjórn, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og Alþingi að kenna, ekki venjulegum Íslendingum.

Gott að spilaborgin hrundi

Mánudaginn 3. nóvember, 2008 - Innlendar fréttir Morgunblaðsins
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

Ábyrgðin vegna íslenska efnahagshrunsins liggur fyrst og fremst hjá bönkunum, ríkisstjórn, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og Alþingi. Þetta segir norski hagfræðingurinn Harald Magnus Andreassen, hagfræðingur hjá norska verðbréfafyrirtækinu First Securites, en hann hefur kynnt sér íslensk efnahagsmál.

„Þessar stofnanir samfélagsins eru ábyrgar með einum eða öðrum hætti. En ekki venjulegt fólk, Jón og Gunna,“ segir Andreassen.

Andressen segist ekki skilja hvers vegna ekki var gripið í taumana áður en í óefni kom á Íslandi. „Það er ekki hægt að kenna alþjóðlegu fjármálakreppunni um ófarir Íslands. Það eru tvö og halft ár síðan ég skrifaði um stöðuna á Íslandi og benti þar á að eitthvað undarlegt ætti sér stað. Ég hef fengið margs konar viðbrögð frá hagfræðingum og bankamönnum víða að. Þar hefur verið bent á að það sem væri að gerast á Íslandi, bæði í efnahagslífinu og hvað varðaði vöxt bankanna, gæti ekki byggst á góðri hagfræði. Og sú reyndist raunin.“ „Að vissu leyti má segja að það hafi verið gott að þessi spilaborg hrundi núna en ekki eftir tvö til þrjú ár. Þá hefði þetta orðið ykkur enn dýrkeyptara. Það hefði átt að vera búið að stoppa ykkur fyrir löngu, en þið voruð heppin að hrunið varð núna.“ segir hann.

Andreassen kveðst telja að Norðmenn hafa takmarkaðan áhuga á að taka á sig byrðar vegna íslenska efnahagshrunsins. „Ég á ekki von á því að Norðmenn séu reiðubúnir að leggja háar fjárhæðir í að greiða niður skuldir Íslendinga. Þið skuldið miklu meira en þið getið greitt þjáningalaust. Ég býst við að flestir Norðmenn myndu segja – látum þá þjást um tíma. Þetta er ekki okkar vandamál. En við myndum ekki láta ykkur svelta.“

No comments: