Friday, October 31, 2008

Alvarlegir fjárhagserfiðleikar hjá 14.000 Íslendingum fyrir bankahrun. Hver er talan í dag?

Hartnær fjórtán þúsund Íslendingar eru í alvarlegum fjárhagserfiðleikum.
Einstæðir feður eru mun líklegri til að lenda í vanskilum en einstæðar mæður en langfjölmennasti hópur þeirrra sem eru á vanskilaskrá eru barnlausir karlmenn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Creditinfo Ísland.

Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu hefur Creditinfo, fyrirtæki sem heldur utan um vanskil landsmanna, tekið saman vanskilastöðu fólks og fjölskyldna í landinu. Það skal tekið fram að þeir sem lent hafa í erfiðleikum eftir bankahrunið hafa enn ekki ratað inn á vanskilaskrá. Hins vegar hefur fólki í vanskilum fjölgað verulega á þessu ári, þrjátíu prósent fleiri hafa lent á vanskilaskrá fyrstu níu mánuði ársins, miðað við allt árið í fyrra.

Það kemur líklega fæstum á óvart að flestir á vanskilaskrá eru með mánaðartekjur undir 250 þúsund krónum eða upp undir helmingur. En það eru einhleypar konur sem flestar ná endum saman, aðeins 3,8 prósent þeirra eru í vanskilum.

Staða þeirra snarversnar þegar þær eru komnar með börn og eru einstæðar, en 13,4 prósent einstæðra mæðra eru í vanskilum. Einstæðir feður eiga enn erfiðara með að standa í skilum því 18,4 prósent þeirra eru á vanskilaskrá. Stærsti hópurinn á skránni, eru einhleypir karlmenn, rösklega 6600 þeirra er í vanskilum, eða 11,7 prósent allra einhleypra karlmanna. Þá eru fimm prósent barnlausra para í hjónabandi eða sambúð í vanskilum og 6,9 prósent para með börn.

[visir.is]

Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð.

Ísland eina landið sem verðtryggir skuldir heimilanna

Jóhanna Sigurðardóttir, alþingism. (Mbl. 2.nóvember, 1996)

Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð. Að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum.

RÍKISSTJÓRNIN telur að sívaxandi skuldir heimilanna séu merki um að heimilin eyði um efni fram. Ríkisstjórnin talar minna um að heimilin í landinu eru oft neydd til að taka lán til að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og fyrir gluggaumslögunum frá lánastofnunum vegna skulda sem sífellt vefja upp á sig. Ríkisstjórnin talar heldur ekki um hvernig verndarstefnan og ofurtollar í landbúnaði, sem heimilin eiga enga sök á, hafa aukið skuldir heimilanna.

Grænmetisverð eykur skuldir heimilanna
Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu á udanförnum árum- fyrir tilstuðlan launafólks og verðbólgan verið með því minnsta sem þekkist. Fólkið skilur því ekki hvernig höfuðstóll skuldanna vex sífellt. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna.

Verðtryggð lán ekki afnumin
Undirrituð beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna. Þar kom margt athyglisvert fram sem kallar á viðbrögð.

Meginniðurstaðan er að verðtrygging er ekki á lánum til heimila í löndum OECD, að Íslandi undanskildu. Notkun hennar í öðrum löndum hefur einskorðast við ríkisskuldabréf en þó í mjög litlum mæli. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð.

Af hálfu stjórnvalda eru engin áform uppi um að takmarka verðtryggingu lána, umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.

Staða heimilanna hér og á hinum Norðurlöndunum
Skuldir heimilanna á hinum Norðurlöndum hafa farið hraðminnkandi frá 1986. Hér á landi hafa þær farið vaxandi á þessum tíma og voru á síðasta ári 125% af ráðstöfunartekjum eða 25% umfram það fé sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Gjaldþrot heimilanna hafa vaxið gífurlega. Á árinu 1993 voru þau 414 ­ á árinu 1995 ­ 871 gjaldþrot. Þannig hafa gjaldþrot heimilanna meira en tvöfaldast á 2 árum. Laun og lífskjör eru hér með því lægsta sem þekkist og vinnutími hvað lengstur. Auk þess þurfa íslensk heimili að búa við verðtryggingu á lánaskuldbindingum sínum sem hvergi þekkist innan landa OECD. Því til viðbótar eru bæði raunvextir og nafnvextir mun hærri hér á landi. Þannig voru nafnvextir um 2­3% hærri á Íslandi, en hinum Norðurlöndum í október sl., þó verðbólgan sé svipuð í þessum löndum.

Ríkisstjórnin hefur enga trú á stöðugleikanum
Stöðugleiki, lítil verðbólga og lengst af jákvæður viðskiptajöfnuður hefur ríkt hérlendis á síðustu misserum. Jafnframt sýna mörg fyrirtæki mikinn hagnað og greiða niður skuldir sínar.

Þessi umskipti í efnahags- og atvinnulífi má að langmestu leyti þakka launafólki, en afleiðing þess hefur bitnað á launafólki, með auknum skuldum þeirra og litlum launahækkunum. Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, ­ sem ríkisstjórnin virðist föst í. Hún hefur enga trú á að stöðugleikinn haldist til frambúðar.

Er Ísland öðruvísi?
Það vekur líka athygli í svari ráðherrans að þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum.

Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta.

http://www.althingi.is/johanna/greinar/safn/000017.shtml

Hvað er eðlileg greiðslugeta?

  • Aðrir lánadrottnar samþykki að veita aðstoð vegna greiðsluerfiðleika ef talin er þörf á því.
  • Að greiðslubyrði samkvæmt greiðslumati sé umfram greiðslugetu.
  • Aðreiðslubyrði umsækjenda eftir skuldbreytingu eða frestun á greiðslum eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu hans. (úr hádegisfréttum rúv 31.nóv. um aðferðir Íbúðalánasjóðs.)

En hvernig er greiðslugetan mæld? Má fólk borða, hafa áhugamál, kaupa föt. Hvað er eðlileg greiðslugeta? Hver ákveður hvað er eðlilegt?

Hvað ætlar sjóðurinn að gera við húsnæðið?

Þeir sem missa húsnæði sitt á uppboð geta nú verið þar í þrjá mánuði í stað eins áður. (úr hádegisfréttum rúv 31.nóv. um aðferðir Íbúðalánasjóðs.)

Hvað ætlar sjóðurinn að gera við húsnæðið eftir 3 mánuði?

Er þetta eignaupptaka?

Heimilt verður að afturkalla nauðungarsölubeiðni gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings áður. (úr hádegisfréttum rúv 31.nóv. um aðferðir Íbúðalánasjóðs.

Ef þú getur ekki greitt helming vanskila og ert komin með nauðungarsölubeiðni í hendurnar, þá er ekki líklegt að þú getir greitt þriðjung (nema þú fáir veð hjá öldruðum ættingjum og afhendir lánastofnuninni stærri hlut í fasteignum annarra)

Lengt í hengingarólinni

Aukning er á greiðsluerfiðleika-umsóknum til Íbúðalánasjóðs.

Búist við að umsóknum til sjóðsins vegna greiðsluerfiðleika eigi eftir að fjölga mikið því samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs fjölgar beiðnum á hverjum degi.

Sjóðurinn hefur breytt reglum sínum varðandi frest:
Frestur frá gjalddaga til greiðsluáskorunar verður 4 til 4 og hálfur mánuður en var áður um það bil helmingi styttri. (úr hádegisfréttum rúv 31.nóv. um aðferðir Íbúðalánasjóðs.

Verður auknum vanskilakostnaði bætt við þegar skuldbreytt verður með auknum ábyrgðum?

Eru lausnirnar alltaf að lengja í hengingarólinni?

10 bætast við á vanskilaskrá á hverjum degi

Fyrstu 28 dagana í október bættust við 280 einstaklingar á vanskilaskrá.

Hvað var íslenska fjármálaeftirlitið á gera í mars?

Intrum Justitia berst fyrir starfsleyfi sínu í Noregi

5.3.2008 mbl.is

Norska fjármálaeftirlitið stendur fast við ákvörðun sína um að innheimtufyrirtækið Intrum Justitia missi starfsleyfi sitt í Noregi og hefur vísað frá áfrýjun fyrirtækisins. Eftirlitið hefur sakað fyrirtækið um ítrekuð brot á reglugerðum um innheimtu en fyrirtækið starfar enn og hefur um 100 starfsmenn.

Vefsíða norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv segir frá þessu.

Í nóvember á síðasta ári ákvað fjármálaeftirlit Noregs að ógilda starfsleyfi fyrirtækisins vegna „umfangsmikilla og langvarandi" brota á reglugerðum allt frá árinu 2004 og fram á síðasta ár.

Meðal þess sem fyrirtækið hefur verið sakað um er að senda út aðvaranir áður en fjórtán dagar eru liðnir frá eindaga og innheimta dráttarvexti. Þá hefur það verið gagnrýnt að starfsfólk sem áður hafi misst leyfi til að stunda innheimtu gegni mikilvægum stöðum hjá fyrirtækinu.

Intrum Justitia unir ekki ákvörðun eftirlitsins og hefur vísað málinu til dómsmálaráðuneytisins, en þar verður tekin endanleg ákvörðun um það hvort brotin réttlæti starfsleyfismissi. Ekki er búist við því að hún liggi fyrir fyrr en í sumar og heldur fyrirtækið starfsleyfinu þangað til.

Um 100 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu og hefur það um 8.000 viðskiptavini.

Thursday, October 30, 2008

Gerum lánastofnanir meðábyrgar fyrir því að lána einstaklingum meira en þeir ráða við að borga af.

Greiðsluaðlögunar-lög

Í Noregi (líklega á hinum Norðurlöndunum líka) eru greiðsluaðlögunarlög cirkabát þannig að:

fólk sem ræður ekki við greiðslur fær einhverja niðurfellingu skulda.
Þetta þýðir að lánastofnanir eru gerðar meðábyrgar fyrir því að lána einstaklingum meira en þeir ráða við að borga af.


Neytendasamtökin vilja flýta lagasetningu um greiðsluaðlögun

Neytendasamtökin segja brýnt að tryggja hag almennings og heimilanna í landinu í þeim erfiðleikum sem steðja að þjóðinni. Vilja samtökin að alþingi flýti afgreiðslu frumvarps um greiðsluaðlögun, eins og fram kemur á heimasíðu samtakanna. Samtökin telja að reyna muni á slíka lagasetningu við núverandi aðstæður. "Á þeirri ögurstund sem nú er í íslensku efnahagslífi treystir stjórn Neytendasamtakanna því að allt verði gert til að tryggja hag sparifjáreigenda og að gætt verði að hagsmunum almennra lántakenda í þeim aðgerðum sem gripið verður til. Stjórnvöld verða að líta fyrst og fremst á hag og hagsmuni almennings og heimilanna í landinu. Því fagna Neytendasamtökin þeim yfirlýsingum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að hagur sparifjáreigenda verði tryggður og hagsmunir almennings séu einir hafðir að leiðarljósi í þeim erfiðu aðgerðum sem í hönd fara" segir í frétt samtakanna.

Þá telja Neytendasamtökin afar brýnt að séð verði til þess að reglur Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika lántakenda verði þannig að komast megi hjá verulegum greiðsluerfiðleikum og gjaldþrotum. "Stjórn Neytendasamtakanna heitir á samstöðu allra aðila í þjóðfélaginu, almennings, fyrirtækja og félagasamtaka að mynda órjúfandi samstöðu um að vinna þjóðina út úr þeim erfiðleikum sem nú steðja að. Neytendasamtökin munu gera það sem í valdi þeirra stendur til að vinna að samstöðu um lausn vandans og leggja sitt að mörkum til að lágmarka megi það tjón sem orðið er og sem gera má ráð fyrir að muni verða" segir ennfremur.

[af vef skutull.is]

Innheimtuferlum Intrum breytt snarlega

Stytting í innheimtuferli. Breyting á innheimtufyrirkomulagi að flytja kröfur til Intrum um leið og þær falla í eindaga. Áður hafa alltaf liðið 20 dagar. Það er greinilegt að þeir hjá Inrum hafa ekki tekið eftir skilaboðum nýju eigendanna þ.e. frá Jóhönnu félagsmálaráðherra og ætla að “græða” á ástandinu.























Algjörlega siðlaust

Mál þetta er í raun tvíþætt. Í gærmorgun hringdi þjónustufulltrúi Intrum í mig og bauð mér að stytta í ferlinu svo ég ætti meiri möguleika á því að fá kröfurnar greiddar. Þessi samskipti voru munnleg og hef ég ekkert tilboð í höndunum. Hjá okkur virkar kerfið þannig að nokkrum dögum eftir að krögur falla í eindaga fá viðskiptavinir bréf frá innheimtubankanum og 20 dögum eftir eindaga fara kröfurnar sjálfkrafa í innheimtu til Intrum.

Þessi þjónustufulltrúi vildi meina að núna væri meiri hætta á að fyrirtæki færu á hausinn en áður (ekki að ástæðulausu) og því væri ráðlegt að gefa fyrirtækum styttri tíma til að borga og tryggja sig þannig. Vissulega er þetta rökrétt en ég afþakkaði boðið því mér finnst það siðferðislega rangt og ekki í takt við að þjóðin og fyrirtækin taki höndum saman og þrauki á erfiðum tímum. Ef allir hugsa eins og ráðgjafarnir í Intrum verður keðjuverkunin sú að allt lamast. Allir fara þráðbeint á hausinn því enginn gefur öðrum séns eða tíma.

Ég hefði haldið að til lengri tíma litið væri skynsamlegra að lengja ferlið og eiga þannig meiri möguleika á að fá greitt. Alla mína starfsæfi hef ég með einum eða öðrum hætti komið að innheimtumálum og mér hefur alltaf fundist best að koma fram við skuldarana af virðingu og gefa þeim þann tíma sem þeir þurfa. Það skilar sér í betri innheimtu bæði í krónum talið og þannig innheimta skemmir ekki viðskiptasamband við viðkomandi og viðskiptin geta haldið áfram með eðlilegum hætti.

Hin vinkillinn er að ég fékk innheimtubréf frá Intrum fyrir hönd Samskipa, þar er að vísu verið að rukka mig um reikning sem var rangur og ég var búin að senda þeim tölvupóst um að leiðrétta reikninginn. Fyrir einhver mistök hjá Samskip hefur það enn ekki verið gert. Mistök verða alltaf það er ekki málið, þessi reikningur verður líkast til leiðréttur fljótlega. Það sem vakti athygli mína var að krafan fór í Intrum strax á eindaga, sjá meðfylgjandi bréf og fylgibréf sem var í sama umslagi og segir frá breyttum innheimtuaðgerðum.

Ekki nóg með það, öllu kurteisishjali var sleppt og innheimtan er komin í lokaviðvörun strax 4 dögum eftir eindaga. Satt að segja finnst mér þetta frekar léleg vinnubrögð hjá Samskipum og ráðgjöfum þeirra í Intrum.

Reikningur er gefinn út í byrjun mánaðar, hann er settur í póst löngu seinna (7-10 dögum) þann 20 fellur reikningur í eindaga og er strax sendur til Intrum og er þar kominn í lokameðferð. Kannski er mér misboðið því reikningurinn er rangur en ég held að þó reikningurinn hefði verið réttur og ég hefði ekki greitt á réttum tíma einhverra hluta vegna (peningaleysi eða mistök) væri mér samt misboðið.

Ég get ekki betur séð en að með þessu sé Intrum að fjölga skjólstæðingum/fórnarlömbum og þannig að taka inn meiri veltu og aukinn gróða í kreppunni. Það má vel vera að þetta sé löglegt en þetta er algjörlega siðlaust.


Landsbankinn neitar að frysta verðtryggt íbúðalán

Í fréttum Stöðvar2 kom fram að Landsbankinn neitar að frysta greiðslur af verðtryggðu íbúðaláni.

Fjölskyldur missa heimili sín

Wednesday, October 29, 2008

Aukin harka í innheimtu: Hver á Intrum?

Aðaleigendur fyrirtækisins Intrum eru Landsbanki Íslands, Sparisjóðirnir og Intrum Justitia.

29.okt., kvöldfréttir RÚV, kom fram að aukin harka er sett í innheimtu.

Intrum vill stytta í venjubundnum greiðslufresti reikninga.

Greiðsluerfiðleikar fólks sem er að borga af íbúðarhúsnæði (úr bækling ASÍ)

Eru einhver úrræði hjá Íbúðarlánasjóði fyrir fólk sem er komið í þrot með greiðslur?
Svar: Já - Íbúðarlánasjóður hefur nokkur úrræði sem hægt er að grípa til þegar lántakendur hjá sjóðnum eru komnir í greiðsluerfiðleika. Verður hverri leið gerð skil hér á eftir. Hér eru mjög góðar upplýsingar frá Íbúðarlánasjóði.

Eru einhver úrræði til staðar fyrir fólk sem tók íbúðarlán í erlendri mynt?
Svar: Já - í nýsettum neyðarlögum er Íbúðarlánasjóði veitt heimild til að koma að og endurfjármagna lán fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ef þessi lán verða yfirtekin af Íbúðarlánasjóði mun lántakendum þessara lána standa til boða sömu úrræði vegna greiðsluerfiðleika eins og þeim sem tóku lán hjá sjóðnum.

Við hvern á að hafa samband til að fá upplýsingar og hjálp í greiðsluerfiðleikum?
Svar: Ýmist snúa skuldarar sér beint til Íbúðarlánasjóðs, viðskiptabanka og/eða Ráðgjafastofu heimilanna.

Í hvaða tilfellum er haft beint samband við Íbúðarlánasjóð?
Svar: Þegar skuldari gerir samning um greiðsludreifingu skulda í allt að 18 mánuði og þegar óska þarf frestunar á greiðslum vegna sölutregðu eignar við kaup á annarri eign.

Ég er komin í vanskil með lán en innheimtuaðgerðir eru ekki hafnar – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og gera samning um greiðsludreifingu gjaldfallina skulda auk afborgana í allt að 18 mánuði. Innheimtuaðgerðir stöðvast sjálfkrafa við samninginn.

Ég er komin í vanskil með lán og innheimtuaðgerðir eru hafnar – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og gera samning um greiðsludreifingu gjaldfallina skulda auk afborgana í allt að 18 mánuði. Innheimtukostnaður fellur ekki niður.

Skuldir eru orðnar svo miklar að ég er að missa íbúðina (nauðungarsölubeiðni)– hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og greiða 50% þess sem í vanskilum er. Ekki hægt að semja um frest á fyrstu fyrirtöku uppboðs og eingöngu greiðslur koma til greina. Sé þetta gert afturkallar Íbúðarlánasjóður nauðungarsölubeiðnina.

Ég er komin í greiðsluerfiðleika sem stafa af óvæntum tímabundnum erfiðleikum s.s. veikindum, slysi, minni atvinnu, atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við sinn banka eða sparisjóð sem fer yfir umsókn um skuldbreytingu vanskila sem hægt er að breyta í nýtt lán til 5 – 15 ára. Viðskiptabankinn gerir síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs um framkvæmd.

Ég er komin í meiriháttar vanskil og í raun þrot með öll mín fjármál – hvað get ég gert?
Svar 1: Hafa samband við sinn banka, sparisjóð og/eða Ráðgjafastofu heimilanna sem fara yfir umsókn um frestun á greiðslum. Þessir aðilar gera síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs sem er heimilt að veita skuldara frestun (frystingu) á lánagreiðslum í 3 ár.
Svar 2: Hafa samband við sinn banka, sparisjóð og/eða Ráðgjafastofu heimilanna sem fara yfir umsókn um frestun á greiðslum. Þessir aðilar gera síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs sem er heimilt að lengja upphaflegan lánatíma um allt að 15 ár.

Úr bækling así, nálgist hér (word-skjal)

Tuesday, October 28, 2008

Frysting á myndkörfulánum

Viðskiptaráðuneytið hefur í dag rætt við alla bankastjóra hinna nýju ríkisbanka til að tryggja að þjónusta við viðskiptavini bankanna sé í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar um frystingu myntkörfulána.

Ríkisstjórnin hefur beint þeim tilmælum til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti afborganir og vexti af myntkörfulánum tímabundið, sé þess óskað, þar til eðlileg (hver ákveður hvað er eðlilegt?) virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Ennfremur að ekki verði sérstakrar greiðslu krafist af viðskiptavinum vegna þessa.

Mælst er til að bankarnir krefji viðskiptavini ekki um frekari tryggingar né láti nýtt greiðslumat fara fram vegna tímabundinnar frystingar á myntkörfulánum.

Í ljósi framangreinds er athygli viðskiptavina nýju bankanna vakin á því að þeir geti óskað eftir frystingu á myntkörfulánum, óháð efnahag sínum.

Í tilmælunum var því einnig beint til ríkisbankanna að þeir bjóði viðskiptavinum sínum í greiðsluerfiðleikum upp á sams konar úrræði og Íbúðalánasjóður hefur gert, sbr. ils.is. Þess er vænst að önnur fjármálafyrirtæki veiti sömu fyrirgreiðslu.

Bent skal á að fjármálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögum um stimpilgjöld, þar sem lagt er til að skjöl sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku laganna til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verði undanþegin greiðslu stimpilgjalda.

Viðskiptaráðuneytinu
22. október 2008

http://www.vidskiptaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/2809

Dagar frekar en vikur

Sérfræðingahópur félagsmálaráðuneytis um verðtryggingarvanda lántakenda, á að koma með álit á einhverjum dögum frekar en vikum.

Vonandi skoða þeir líka vanda fjölskyldna því lántakendur er auðvitað allir.

Monday, October 27, 2008

Guð láti gott á vita

Guð láti gott á vita
Félags- og tryggingamálaráðherra felur sérfræðingum að fjalla um verðtryggingu lána
27.10.2008
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur í dag skipað fimm manna sérfræðingahóp sem falið hefur verið að skoða hvort og þá hvaða leiðir séu færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar.

Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og formaður Aþýðusambands Íslands, er formaður starfshópsins. Aðrir fulltrúar eru Þorkell Helgason stærðfræðingur, Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, starfar með hópnum.

Ráðstafanir til að vernda fjölskyldur

Úr grein eftir hagfræðingana Gylfa Zoëga og Jón Daníelsson í mogganum í dag, mánudag 27.okt.
............














Í fyrsta lagi verði sett lög sem tímabundið (t.d. í sex til tólf mánuði) verndi einstaklinga og fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum fyrir ágangi kröfuhafa.










............

Sunday, October 26, 2008

"Ég skulda alveg nóg, get ekki meir."

Það var hressandi að heyra í Gunnari Sigurðssyni í Silfrinu:

„Það þarf núna að hugsa núna útfyrir kassann.
Peningakerfið sem við búum við í dag eru tilbúnar reglur, ekki náttúrulögmál. Umræðan um lausnir í dag er eins og á miðöldum, ekkert nýtt. Það á að láta almenning borga brúsann.“

Sjálfvirk lántaka um hver mánaðamót

Verðtrygging virkar eins og sjálfvirk lántaka um hver mánaðamót: verðtrygging bætist við og leggst á höfuðstól.

Frysta verðtryggðu lánin líka

Í Silfrinu stakk nýr forseti ASÍ upp á að:
frysta ætti verðtryggðu lánin, ekki bara gengistryggðu lánin

Hverjum gagnast gjaldþrot almennings?

Egill sagði í Silfrinu áðan: Það getur ekki verið meiningin að gera íslenskan almenning gjaldþrota? Það getur ekki verið að neinn græði á því.

Ætti að breyta skuldsetningu heimilanna svo hún samsvari greiðslugetu?






Úr grein í Morgunblaðinu 21.okt sl. rituð af Robert Z. Aliber sem er professor emeritus við háskólann í Chicago. Hann hefur á löngum ferli rannsakað fjármálakreppur um víða veröld.

Saturday, October 25, 2008

Það er eins og engum þyki vænt um fjölskyldurnar á Íslandi.

Það á að pína fjölskyldurnar til að greiða áfram af verðtryggðu skuldunum sínum. Jóhanna sagði í fyrstu viku október sem dæmi um viðbrögð ríkisstjórnar, að það gæti orðið nauðsynlegt að frysta allar lánagreiðslur heimilanna í 6–8 mánuði. Þetta lýsti fyrir þjóðinni alvarleika málsins. Alvarleikinn er enn til staðar en það eina sem boðið er upp á er skuldbreyting (með aukinni veðsetningu), niðurfellingu stimpilgjalds til áramóta og að flytja myntkörfulán til Íbúðalánasjóðs. Þeir sem lenda í vanskilum eftir áramót fá þá enga ívilnun.

Friday, October 24, 2008

11–Jón forseti trúði því að ef Íslendingar eignuðust háskóla og menntað fólk, þá yrði ekki hægt að selja vörur þrefalt dýrara á Íslandi en í Danmörku

11. Hví er engin umræða í fjölmiðlafræðum og blaðamannafélaginu?


5. Niðurstaða og spurningar
....................
Niðurstaðan af því sem hér hefur verið ritað, og sundurgreint í tölulið 1 til 4, er að alvarlegt þjóðarmein, vaxtaáþján, er látið viðgangast.

En hið grafalvarlega í þessu máli er að meininu er viðhaldið með aðferðum sem benda til þess að veruleg brotalöm sé á íslensku lýðræði, nefnilega skortur á upplýsingum og umræðu.

Eftirtöldum spurningum þarf að svara:

1. Á fyrri hluta tíunda áratugarins, þegar bankar voru einkavæddir, varð gífurleg lækkun á vöxtum í Evrópu, fara þurfti 100 ár aftur í tímann til þess að finna jafn lága vexti. Á sama tíma varð sáralítil vaxtalækkun á Íslandi. Hvers vegna hækkuðu vextir hlutfallslega svo mjög á Íslandi miðað við önnur lönd á þessum tíma?
----------
2. Yfirleitt eru hugsjónafélög lögð niður eða róttækt breytt þegar þau hafa ekki lengur neitt hlutverk og/eða þegar reksturinn gengur illa. Þessi skilyrði voru ekki til staðar þegar Sparisjóðirnir voru einkavæddir. Þvert á móti gékk rekstur þeirra sérdeilis vel, og hlutverk þeirra hafði aldrei verið mikilvægara þar sem bankavextir voru óviðráðanlega háir og sparisjóðirnir gátu lánað á lægri vöxtum (vegna þess að það var mikill tekjuafgangur á rekstri þeirra).
3. Hvað hefur orðið af margboðuðum útreikningunum hagfræðideildar H.Í. af þjóðhagslegum ávinningi útrásarinnar?
----------
4. Hví hafa tölurnar frá Seðlabankanum um stöðuga versnun eignarstöðu Íslands aldrei náð inn í fjölmiðla en sífellt er þjóðinni talin trú um að íslendingar séu að eignast verðmæti erlendis? Hví er engin umræða í fjölmiðlafræðum og blaðamannafélaginu um hvort eignarhald fjölmiðlanna hafi áhrif á skrif um fjármál og vaxtamál?
----------
5. Hver er kostnaður almennings af að hafa íslensku krónuna? Hvað myndi sparast ef almenningur fengi greitt í evrum og hægt væri að taka evrulán án gengisáhættu? Hvað myndi sparast með aukinni verðsamkeppni erlendis frá- og aukinni verðvitund ef evran yrði tekin upp? Hver er hagstjórnarmáttur krónunnar, hver er ágóðinn við að hafa hana og hví er ekki reynt að setja þessar stærðir inn í reiknilíkan?
----------
6. Nú hefur gífurlegum eignum verið komið á fáar hendur á Íslandi, og samkvæmt frjálshyggjukenningum á það að leiða til aukinnar hagsældar alls almennings. Hafa þessar kenningar reynst réttar? Hvað hafa ráðstöfunartekjur aukist mikið þegar tekið hefur verið tillit til greiðslubyrði vegna ofurvaxtanna íslensku?

Tveir dánumenn hefðu orðið verulega vonsviknir ef þeir hefðu frétt af framistöðu Háskólanna á Íslandi í þessum málum, en það eru þeir félagarnir Platón og Jón Sigurðsson. Platón, stofnandi háskóla, var á móti mötun, en hvatti til umræðu og sjálfstæðrar hugsunar. Jón Sigurðsson var á móti verslunareinokun og því að miklu hærra verð þyrfti að greiða fyrir vörur á Íslandi en í Danmörku. Hann trúði því að ef Íslendingar eignuðust eigin háskóla og vel menntað fólk, þá yrði ekki hægt að selja vörur einsog lán þrefalt dýrara á Íslandi en í nágrannalöndunum.

En þar skjátlaðist honum. Menntunarstig þjóðarinnar virðist vera þannig að árum saman er hugmyndin um “Útrás” tuggð upp án þess að nokkur maður, hagfræðingur, fjölmiðlafræðingur, stjórnmálafræðingur, lögfræðingur eða viðskiptafræðingur, hirði um að kanna frumheimildirnar hjá Seðlabanka eða Hagstofu.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í 5 prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

10–Skuldir kr. 34 mill. á heimili síðustu 10 ár.

10. Íslensku bankarnir fá fyrirhafnarlaust 200 milljarða á ári vegna hávaxtastefnu sinnar


4. Höfðað er til þjóðerniskenndar.

....................

Vissulega blandast þjóðerniskennd inn í umræðuna um bankana.

Í fjölmiðlum hefur mátt lesa: “Nú ganga Íslendingar stoltir um götur Kaupmannahafnar, þeir bera höfuðið hátt í hinni fornu höfuðborg ….”.

Og: “Það gerir ekkert til að tapa fyrir Dönum í handbolta, við erum hvort eð er að leggja þá að velli með eignaryfirtöku”.

Yfirhöfuð gerir ekkert til að tapa íbúðinni sinni á nauðungaruppboði bankanna hér heima, bara ef þeir kaupa íbúðir í Danaveldi fyrir ágóðann. Og hin yfirnáttúrulega fjármálasnilli íslendingana skýrist helst af því að þeir eru fæddir Íslendingar.

Yfirburðaeðlið er nátengt hinu séríslenska; áræði, snarræði, þor og gáfum. Okkur hlýnar um hjartarætur, við erum þeir. En því miður er það hér sem endranær, þjóðerniskenndin hefur aðeins nýttst til forheimskan þjóðanna.

Staðreyndin er að íslensku bankarnir fá fyrirhafnarlaust u.þ.b. 200 milljarða á ári upp í hendurnar vegna hávaxtastefnu sinnar, þeir reyna að ávaxta þessa upphæð erlendis en geta það ekki heldur glutra því öllu niður eins og tölurnar frá Seðlabankanum sýna.

Láta mun nærri að skuldir hvers heimilis vegna klaufalegra fjárfestinga íslenskra bankamanna síðustu 10 árin sé 14 miljónir (Tafla 1.). Þar við bætast 2 milljónir á ári vegna vaxtamismunarins, alls kr. 34 mill. per heimili síðustu 10 ár.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

9–Aðeins þriðjungur Íslendinga, sem nú eru að borga af lánum sínum, væru ennþá með húsnæðislán ef vextir í landinu hefðu verið eðlilegir

9. hluti—Fögur er hlíðin.


3. Búin eru til mjög gildishlaðin orð og hugtök sem koma í veg fyrir gagnrýna hugsun og spurningar.

....................
Einn þáttur í áróðursstríði ráðandi aðila til þess að almenningur sætti sig við mannréttindabrot er að búa til ný orð, hugtök og frasa.

Þeir eru hannaðir til þess að réttlæta og kæfa niður andóf og gagnrýna hugsun. Þetta er best þekkt í stríðsáróðri, en kemur fyrir miklu víðar.

Úr samtímanum er t.d. þekkt: “Weapons of mass destruction”, “Axis of evel” og “War on terror”.

Sambærileg orð úr íslenskum samtíma eru: “Íslenska efnahagsundrið”, “Íslenska Efnahagsæfintýrið”, “Hin glæsta íslenska Útrás”, “yfirtaka Íslendinga á erlendum fyrirtækjum” og fleiri. Sérlega áhrifamikið er að höfða til þjóðerniskenndar, enda fékk Gunnar syndafyrirgefningu í 1000 ár fyrir yfirganginn, samningsrofin og lögleysuna með hinum hnitmiðuðu orðum: “Fögur er hlíðin….”

Eins og sýnt var fram á í fyrri hluta þessarar greinar þá eiga orð eins og “Útrás” og “Efnahagsundur” engan rétt á sér, þau eru hreinn skáldskapur.

En þegar þessi orð eru endurtekin nógu oft þá fær þjóðin á tilfinninguna að allt leiki í lyndi og að ekkert sé að íslenska bankakerfinu. Blákaldar staðreyndirnar falla í skuggann en þær eru: Ef Íslendingar hefðu haft sambærileg lánakjör og nágrannaþjóðirnar væru tveir þriðju hluti þeirra búnir að greiða upp lánin sín að fullu með núverandi greiðslubyrði.

Með öðrum orðum; aðeins þriðjungur þeirra íslendinga sem nú eru að borga af lánum sínum væru ennþá með húsnæðislán ef vextir í landinu hefðu verið eðlilegir.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

8–Lágt tekjuskattsþrep á fyrirtæki á Íslandi virtist því ekki duga

8.hluti — "Hin glæsta útrás" í íslenskum fjölmiðlum.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.

....................
Svo ekki verði um villst segir skýrsla Daníels Svavarssonar og Péturs Arnars Sigurðssonar orðrétt: “Þrátt fyrir að tekjur af beinum fjárfestingum Íslendinga erlendis séu umtalsverðar hafa þær ekki dugað til að vega upp á móti gjöldum til erlendra aðila af fjárfestingum þeirra í innlendum félögum.”(Bls. 67)

Semsagt, það er innrás í Ísland, hlutlausar hagtölur segja þveröfugt við þá ímynd sem dregin er upp í fjölmiðlum. Það er alvarleg brotalöm á lýðræði. Sérstaklega þegar þess er gætt að þetta er notað til þess að beina athyglinni frá því að drýgsta tekjulind bankanna, og undirstaða sjálfsskammtaðra ofurlauna, er vaxtaáþján á íslenskan almenning. Töluliður 2. að ofan er til staðar.

Margt fleira athyglisvert getur að lesa í skýrslunni. Til dæmis það að þótt skattaumhverfi fyrirtækja sé einstaklega hagstætt á Íslandi þá dugar það ekki íslenskum viðskiptamönnum; (Bls. 68) “Færst hefur í vöxt að íslensk fyrirtæki og einstaklingar færi hlutabréfaeign sína til útlanda beinlínis í því skyni að komast hjá því að greiða skatt af söluhagnaði hlutabréfa.” Og “Lágt tekjuskattsþrep á fyrirtæki á Íslandi virðist því ekki duga”. Það er semsagt ekki nóg að hafa lágt tekjuskattsþrep og borga lítið til samfélagsins heldur vilja þeir alveg komast hjá því að borga nokkurn skapaðann hlut til samfélagsins. Þetta atriði hefur alveg gleymst þegar umræðan geysar um alla þá velsæld sem fjármálamenn færa íslenska þjóðarbúinu.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

7–Voru ofurlaunin möguleg vegna þess að bankamennirnir selja Íslendingum a.m.k. þrefalt dýrari lán heldur en viðskiptavinum sínum erlendis?

7.hluti — "Hin glæsta útrás" í íslenskum fjölmiðlum.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.
....................
Á ári hverju þegar skattskráin er birt, rekur fólk í rogastans þegar það sér að íslenskir bankamenn eru með mörg hundruð milljónir í árstekjur. Eitt andartak, eitt brot úr sekúndu tengja menn það við að lánin á Íslandi eru að minnsta kosti þrefallt dýrari en í nágrannalöndunum.

En strax fara að birtast í fjölmiðlum lofgreinar um hversu snjallir íslenskir bankamenn eru, og hversu miklum árangri þeir eru að ná og að þeir eigi þessi laun þess vegna fyllilega skilið.

En ef við yfirgefum um stund glansmyndina sem dregin er upp af bankamönnunum í þeirra eigin fjölmiðlum, og lítum þess í stað á beinharðar tölur frá Seðlabankanum þá birtist allt önnur og dekkri mynd:

Slóðin á heimasíðu Seðlabankans hér að ofan er m.a. inn á skýrsluna: Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur eftir Daníel Svavarsson og Pétur Örn Sigurðsson.

Þar getur að lesa orðrétt: Í Bretlandi, líkt og á Íslandi hafa bæði skuldir og eignir þjóðarbúsins vaxið gífurlega á undanförnum árum.

Þrátt fyrir þrálátan viðskiptahalla hefur hrein erlend staða ekki versnað. Skýringin er að ávöxtun erlendra eigna Breta hefur að meðaltali verið 2% hærri en ávöxtun erlendra skulda í Bretlandi. Á Íslandi hefur einnig verið gífurlegur vöxtur í erlendum eignum og skuldum.

Hér hefur hins vegar orðið mikil versnun á erlendri skuldastöðu sem skýrist aðallega af því að íslenskir fjármálamenn hafa ekki kunnað að ávaxta fé sitt erlendis í sama mæli og Bretar. (Einhverra vegna hefur þessi staðreynd ekki ratað í íslenska fjölmiðla). Á meðan viðskiptavit breskra fjármálamanna í erlendum fjárfestingum vegur upp breska viðskiptahallann, þá sýnir mynd 9 í áðurnefndri skýrslu að hrein íslensk eignarstaða versnar hraðar en íslenski viðskiptahallinn.

Ennfremur segir orðrétt í skýrslunni: Bein fjárfesting Bandaríkjamanna erlendis skilar rúmlega tvöfallt hærri ávöxtun en beinar fjárfestingar erlendra aðila í Bandaríkjunum. En hversu miklu hærri ávöxtun skila fjárfestingar íslendinga erlendis miðað við fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi? Áðurnefnd skýrsla svarar því: Meðalávöxtun beinna fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi var 32,4% árið 2004, 31% 2005 og 23,2% 2006. Meðalávöxtun af beinni fjárfestingu íslenskra aðila erlendis var á sama tíma 7,6%, 13,5% og 9,9% eða u.þ.b. þriðjungur.

Með öðrum orðum, á meðan meðal bandarískur fjárfestir nær helmingi hærri ávöxtun erlendis en erlendir fjárfestar ná í heimalandi hans, nær íslenskur fjárfestir erlendis aðeins einum þriðja af þeirri ávöxtum sem erlendir aðilar ná í hans heimalandi.

Sé þessi mælikvarði notaður (2/1 : 1/3) sést að íslenskir fjármálamenn hafa að meðaltali einn sjötta af viðskiptaviti Bandaríkjamanna.

Réttlætir það ofurlaun bankastjóranna?

Eða eru ofurlaun tilkomin vegna þess að bankamennirnir selja Íslendingum a.m.k. þrefalt dýrari lán heldur en viðskiptavinum sínum erlendis?
Andrés Magnússon, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

6–Engin vitræn umræða í íslenskum fjölmiðlum

6.hluti — "Hin glæsta útrás" í íslenskum fjölmiðlum.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.

....................
Ef reynt er leiða hjá sér þá mynd sem dregin er upp af “Hinni glæstu útrás” í fjölmiðlum og þess í staðinn sjónum beint að hlutlausum, beinhörðum hagtölum Seðlabanka Íslands, þá kemur allt önnur mynd í ljós: (sedlabanki.is; Hagtölur; Erlend staða; Tímaraðir-Erlend staða þjóðarbúsins og Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur (Peningamál, 2. hefti 2007).

Hið fyrsta sem blasir við er hvernig nettóeignarstaða Íslands hefur þróast síðan “Útrásin” hófst (Tafla 1.)










Tölurnar stækka með hverju árinu og virðast fyrst í stað styrkja kenninguna sem okkur þykir svo vænt um að eignir Íslendinga séu alltaf að aukast, fyrst og fremst vegna kaupa okkar á erlendum eignum og fyrirtækjum.

En svo rekur maður augun í það að mínustala er fyrir framan allar tölurnar. Það er semsé engin útrás í gangi og hefur aldrei verið; það er nær að tala um innrás. Eina útrásin sem virðist hafa átt sér stað er í lánadeildir erlendra stórbankanna.

En “Útrásin” á að hafa verið stórkostleg lyftistöng fyrir íslenskan efnahag. Hér er komin lausn á fjárhagsvanda allra landa: Taka lán erlendis til þess að kaupa eignir erlendis, það er gott fyrir efnahaginn þótt eignirnar séu verðrýrari en lánin, og lánin hækki hraðar en verðgildi eignanna. Það er óþarfi að taka fram að engin vitræn umræða hefur farið fram um þessi mál í íslenskum fjölmiðlum.




























Finnst almenningi umfjöllun íslenskra fjölmiðla um hin “Glæstu uppkaup íslendinga erlendis” vera í samræmi við veruleika súluritsins hér að ofan? Hrein staða Íslands var neikvæð um 122% en hrein staða án áhættufjármagns var nálægt 200% af vergri þjóðarframleiðslu. Aðeins eitt land í heiminum hefur hærri hluta af erlendum fjárfestingum sínum í áhættufjármagni.

Erlendar skuldir innlánsstofnana voru 82% af erlendum skuldum íslendinga. Hin geypilega neikvæða eignarstaða Bandaríkjanna er mikið áhyggjuefni út um allan heim. Hún er þó hreint smáræði miðað við neikvæða eignarstöðu Íslands.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í 5 prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

5–Íslenskir bankamenn öðrum þjóðum fremri þó lítil sem engin hefð eða þekking hafi verið á alþjólegri bankastarfsemi á Íslandi

5.hluti — Fjölmiðlar mæra bankana.

2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.

....................
Þó svo að meðal fjölskylda á Íslandi þurfi að auka tekjur sínar um allt að þremur milljónum á ári til þess að brúa muninn á því sem greiða þarf fyrir íbúðarlán á Íslandi miðað við útlönd, ríkir samt ekki mikil gremja út í íslensku bankana.

Það er ekki bara vegna þess að umræðan um vaxtamuninn milli Íslands og útlanda kemst aldrei í hámæli í fjölmiðlum, heldur ekki síður vegna þess að stöðugum, þungum straumi af jákvæðri umfjöllun um bankana er haldið að íslenskum almenningi. Gildishlaðin orð eins og “Íslenska efnahagsundrið”, “Efnahagsæfintýrið”, “Hin glæsta íslenska Útrás” o.s.frv. eru notuð í allri umfjöllun um hina íslensku banka.

Stöðug viðtöl birtast við forstöðumenn bankanna þar sem þeir mæra eigin störf, og segjast leiða mikla búsæld yfir alla þjóðina. “Íslendingar hasla sér nú stöðugt völl erlendis”, “yfirtaka íslendinga á erlendum fyrirtækjum…”, “ótrúlegur árangur íslenskra ……” er það sem sífellt heyrist í fjölmiðlum; og við fyllumst þjóðarstolti.

Stöðugt er endurtekið að bankarnir séu mikill búhnykkur fyrir þjóðarbúið og allan almenning. Og þegar berast fréttir af því að tveir af framámönnum bankanna hafi verið með einn og hálfan milljarð í árstekjur, þá er það aldrei tengt því að auðvitað myndast gífurlegur gróði við hina himinháu séríslensku bankavexti, heldur eru dregnar upp glæsimyndir af bankastjórunum í fjölmiðlunum. Íslenskir bankamenn eru eins konar ofurmenni, og við þessir venjulegu Íslendingar viljum trúa því vegna þess að undir niðri er jú skýringin á snilli bankamannanna sú að þeir eru Íslendingar. Og við sjálfir erum líka Íslendingar.

Mörgum hefur gengið erfiðlega að skilja hvers vegna einmitt íslenskir bankamenn séu öðrum þjóðum fremri þar sem lítil sem engin hefð eða þekking hefur verið á alþjólegri bankastarfsemi á Íslandi.

Fjölmiðlar segja okkur að skýringin sé sú að boðleiðir eru hafðar svo stuttar og greiðar hjá íslenskum bankamönnum.

Þá vaknar spurningin hvers vegna aðrir bankar taka ekki upp þennan hátt líka fyrst hann er auðsjáanlega svo miklu fremri. Það er jú eðli alls einkareksturs að þær aðferðir sem ganga best og skila mestum árangri eru strax teknar upp af öðrum.

Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í 5 prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin verður birt í nokkrum hlutum.

4–Hvenær birtast viðtöl við fólk sem borgar stóran hluta af höfuðstól lánsins á hverju ári en lánið minnkar aldrei?

4.hluti — Umræðu haldið frá þjóðinni

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræða um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
....................
Hvenær birtast viðtöl í fjölmiðlum við venjulega launþega sem hafa orðið gjaldþrota? Hvenær eru birt viðtöl við fólk sem hefur verið að borga stóran hluta af höfuðstól lánsins á hverju ári en lánið minnkar samt ekkert?

Hvenær er kastljósinu beint að blessuðu börnunum sem nánast aldrei sjá foreldrana sína því þeir þurfa að vinna geysilega yfirvinnu til þess að borga af húsnæðislánunum? Slíkar fréttir birtast margfallt sjaldnar heldur en viðtöl við forstöðumenn greiningadeilda bankanna.

Samt eru þessir venjulegu Íslendingar þúsund sinnum fleiri heldur en bankamennirnir sem sífellt eru teiknaðir upp sem hetjur í fjölmiðlunum. Þótt að ofsagróði þeirra sé bara tilkominn af því að bjóða Íslendingum hér þrefalt hærri vexti heldur en þeir bjóða viðskiptavinum sínum erlendis.

Þess ber að geta að vegna þess hversu íslensku bankarnir eru hæfir og traustir, þá fá þeir fjármagnið fyrir útlánunum sínum á sömu kjörum og erlendu bankarnir, þannig að þeir ættu að geta lánað á sömu kjörum en ekki þrefalt dýrara. Ef þeir hefðu þurft að fá lánin sín á dýrari kjörum en erlendir bankar þá væru hvorki bankarnir þeirra traustir né bankastjórarnir snjallir.

Af þessu sést að upplýsingum og umræðu um grafalvarlegt þjóðfélagsmein er haldið frá þjóðinni.


Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin verður birt í nokkrum hlutum.

3–Fréttastjórarnir láta aldrei taka upp beinskeytta umræðu um vaxtaáþjánina

3.hluti — Umræðu haldið frá þjóðinni

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræðu um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
....................
En það sem er svo sérstaklega sárt við þetta er að það er nánast engin umræða um þessa áþján. Það er kannske ekkert undarlegt þegar þess er gætt að afar fáir aðilar ráða fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi, og þessir aðilar eru nátengdir fjármálalífi landsins.

Hví ættu þeir að skrifa neikvætt um viðskiptalífið sitt, það myndi kannske leiða til þess að hlutabréfaverð lækkaði eða að almenningur myndi ekki samþykkja að borga hina háu bankavexti sem er undirstaða “hinnar glæstu útrásar”? Enda líkjast sum íslensk viðskiptablöðin fyrst og fremst auglýsingabæklingum þar sem engin gagnrýnin umræða fer fram. Dæmigerð grein er t.d. að fulltrúar bankanna skrifi greinar um að vextir þurfi áfram að vera háir og að við komumst ekki af án verðtrygginga o.s.fr.

Þó að einstaka óbreyttur Íslendingur reyni að fá birta aðsenda grein um þessi mál, þá mega stöku pistlar sín lítils.

Ritstjórar og fréttastjórar ráða yfir herskara af blaðamönnum og fréttamönnum, aðsendu greinarnar drukkna vegna þess að ritstjórarnir og fréttastjórarnir láta aldrei taka upp beinskeytta umræðu um vaxtaáþjánina, beina kastljósinu aldrei að vaxtareinokunaraðstöðu bankanna.

Og það sem meira er, háskólamenn í viðskiptafræðideildum, hagfræði og víðar taka heldur ekki upp neina gagnrýna umræðu um þessa vaxtaáþján, þetta séríslenska ok á herðum almennings. Þeir eru uppteknir við að upplýsa almenning um alla þá hagsæld sem hlýst af hinni glæstu útrás.


Andrés Magnússon, geðlæknir, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í nokkrum hlutum.

2–Fjölskyldur greiða eina milljón aukalega á ári

2.hluti — Þjóðfélagslegt óréttlæti: geysiháir bankavextir

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræðu um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
....................

Vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru nálægt 15%, en í nágrannalöndum okkar 4 til 5%, líka í bönkum sem íslendingar hafa keypt í nágrannalöndunum. Munurinn er ca 10% á ári, og þessi vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna hefur verið til staðar í mörg ár eða áratug.

Láta mun nærri að hver fjölskylda á Íslandi skuldi að meðaltali 10 milljónir í húsnæðislán. 10% af 10 milljón krónum er ein milljón krónur á ári, það er sú upphæð sem við greiðum aukalega fyrir að vera í viðskiptum við íslenska en ekki erlenda banka. Það þýðir að hver íslensk fjölskylda greiðir að meðaltali um eina milljón króna á ári algerlega að óþörfu til íslenskra banka. Ef tekið er inn í reiknisdæmið vaxtavextir, lausaskuldir og skuldir verslunarinnar í íslenskum krónum (sem velt er yfir á neytendur) þá má sennilega tvöfalda þessa upphæð.

Andrés Magnússon, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað. Greinin er birt í 11 hlutum.

1–Greinin sem enginn vildi birta

1.hluti — Þjóðfélagslegu óréttlæti viðhaldið af fjölmiðlum

Andrés Magnússon, reyndi að fá þessa grein birta í prentmiðlum í upphafi ársins en var alls staðar hafnað.
Greinin er birt hér á
http://okurvextir.blogspot.con í 11 hlutum með góðfúslegu leyfi Andrésar.


Hægt er að viðhalda miklu þjóðfélagslegu óréttlæti ef ákveðnir annmarkar eru á upplýsingaflæði til almennings. Hérlendis á þetta sérstaklega við um þá ímynd sem haldið er að almenningi varðandi íslensk bankamál. Á Íslandi er umræða um alls kyns samfélagsmál og álitamál. Eitt er þó sem ekki má tala um nema í mjög jákvæðum tón, og alls ekki reyna að kryfja til mergjar, en það er “Hið íslenska efnahagsundur”. Erlendis tíðkast opin umræða um kosti og galla ýmissa efnahagsaðgerða. Umræðan er “balanced”, kostir og gallar dregnir fram, báðar hliðar málanna skoðaðar. Hér á Íslandi er aldrei gagnrýnin umræða um “Efnahagsundrið” svokallaða, heldur er umræðan um hana alltaf jákvæð. Ferns konar annmarkar eru á upplýsingunum um íslensku bankana:

1. Takmörkuð og mjög tempruð umræðu um þjóðfélagslega óréttlætið sem tengist geysiháum bankavöxtum.
2. Athyglinni er beint frá áþján almennings með því að stöðugt fjalla á mjög jákvæðan hátt um bankana þannig að reiðin beinist ekki gegn þeim.
3. Búin eru til mjög gildishlaðin orð og hugtök sem koma í veg fyrir gagnrýna hugsun og spurningar.
4. Höfðað er til þjóðerniskenndar.
5. Niðurstaða og spurningar.

Hve mikill hluti af launum íslenskra fjölskyldna fer í fasteignakaup?

Við þurfum að fá
Samanburð við nágrannaríkin:
– hve mikill hluti af launum íslenskra fjölskyldna fer í að halda þaki yfir höfuðið

Samanburð við nágrannaríkin:
– hvað Íslendingar þurfa að vinna langan vinnudag og vinnuár til að halda þaki yfir höfuðið

Hér var aldrei gagnrýnin umræða um efnahagsundrið og útrásina

Hér var aldrei gagnrýnin umræða um efnahagsundrið og útrásina.

Að sama skapi er hér lítil umræða eða upplýsing um verðtryggingu lána. Hvað hún þýðir fyrir heimilin í landinu.

Lítil umræða um það af hverju ekki sé byggður upp eðlilegur leigumarkaður á Íslandi. Leigumarkaður þar sem fjölskyldur geta verið öruggar í langan tíma án þrýstings um að fjárfesta í fasteign.

Ekki gera það sem bankinn segir þér

Bankar eru ekki góðar ráðgjafastofur. Bankarnir fara ekki eftir tilmælum eigenda sinna (ríkisstjórnarráðherranna) og bíða eftir fyrirskipunum. Sumir lántakendur eru látnir greiða fyrir skuldbreytingar, aðrir ekki. Bara í dag, ekki á morgun.
Góð hugmynd er að fólk bíði með að "laga" lánin sín. Gera eins og íslenska ríkið í bili. Greiða ekkert. Forða laununum sínum og bíða eftir að þau standi við það sem þau hafa sagt: Frysta allar greiðslur í 6–9 mánuði, helst af öllum lánum. Fólk getur notað tímann til að setja sig inn í málin og velja besta kostinn fyrir sig.
Bankafólkið er ekki með þína hagsmuni í huga við ráðgjöfina. Ekki fyrr, ekki nú.

Thursday, October 23, 2008

Hvað verður gert við íbúðirnar?

[visir.is] Síðast uppfært: 23.10.2008 19:00

Bankar hlíti tilmælum stjórnvalda


Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að ráða megi af fréttum að undanförnu að stjórnendur ríkisbankanna þriggja virði að vettugi tilmæli ríkisstjórnar um að frysta húsnæðislán í erlendri mynt og aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Það verði ekki liðið.

Jóhanna sagði á ársfundi Alþýðusambandsins í dag að margt hafi verið gert til að auðvelda þeim sem skuldi húsnæði einkum að fólk geti látið frysta innlend og erlend lán og niðurfelling stimpilgjalda af skuldbreytingum lána.

Jóhanna segist hafa skipað fimm manna sérfræðinga hóp um það hvort unnt sé að gera eitthvað varðandi verðtryggðu lánin. Þegar hafi þó verið innleitt að þeir sem eru í greiðsluerfiðleikum megi greiða aðeins vexti og verðbætur af þeim en ekki af höfuðstól í ákveðinn tíma.

Jóhanna hefur einnig falið hópi að skoða hvort unnt sé að leigja fólki íbúðir sem það kann að missa vegna atvinnumissis og þungrar greiðslubyrði. Einnig sé skoðað hvort unnt verði að fella tímabundið úr gildi heimild til að draga opinber gjöld og meðlagsskuldir frá barna- og vaxtabótum.

Þá sagði Jóhanna að ríkisstjórnin hafi beint þeim tilmælum til ríkisbankanna þriggja að heimila frystingar erlendra lána og beita sömu úrræðum og Íbúðalánasjóður hefur vegna þeirra sem eiga erfitt með að greiða af bankalánum.

Laga lán að greiðslugetu

Almenningur þarf að vita að bankarnir eiga okkur ekki. Eðlilegt er að þeir lagi lán að greiðslugetu fólks. Allir þurfa að borða út mánuðinn, fram að næstu greiðslu (hvaðan sem hún kemur). Gott er að taka frá pening fyrir mat, sjá svo til með restina.

Hvað meinar maðurinn? Hver á ekki í vandræðum?

Guðmundur Bjarnason skilgreini vandræði


Sífellt fleiri óski eftir aðstoð Íbúðalánasjóðs [ruv.is]
Bankar þjónusti íbúðalán áfram

Dæmi eru um að fólk óski eftir aðstoð Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika þótt það eigi ekki í vandræðum, segir Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs. Guðmundur segir að umsvif Íbúðalánasjóðs séu um 600 milljarðar króna og íbúðalán bankanna séu á svipuðu bili, 600 til 700 hundruð milljarðar. Íbúðalánasjóði verður heimilt að kaupa lán af bönkunum en þeir þurfa þá að óska eftir því.

Guðmundur segir að uppi séu hugmyndir um að viðskiptabankarnir haldi áfram að annast þjónustu við íbúðaeigendur þótt Íbúðalánasjóður hafi yfirtekið lánin. Fyrir vikið geti dregið úr uppsögnum í bönkum.

Guðmundir segir að sífellt fleiri óski eftir aðstoð Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika og gerir ráð fyrir að það sama gildi um bankana.

Ekki hagstæð lög fyrir neytendur—Til hvers er þetta þá?

Frumvarp að lögum um greiðsluaðlögun er fyrir Alþingi. Gott væri að fá að skoða þessi drög, en þangað til er hér umsögn umboðsmanns neytenda frá því í sumar leið.
Honum finnst það ekki nægilega hagstætt neytendum, en þetta er fyrir neytendur svo fylgjumst með.

[af vef umboðsmanns neytenda]

Greiðsluaðlögunar-lög

Í Noregi (líklega á hinum Norðurlöndunum líka) eru greiðsluaðlögunarlög cirkabát þannig að:

fólk sem ræður ekki við greiðslur fær einhverja niðurfellingu skulda.
Þetta þýðir að lánastofnanir eru gerðar meðábyrgar fyrir því að lána einstaklingum meira en þeir ráða að að borga af.

Ef einhver þekkir þetta betur væri gott að fá það hér inn.

Wednesday, October 22, 2008

Öll myntkörfulán?

Frysting erlendra lána

22.10.2008

Tilkynning frá Viðskiptaráðuneyti

Í ljósi frétta af frystingu erlendra lána vill ríkisstjórnin taka fram eftirfarandi:

Viðskiptaráðuneytið hefur í dag rætt við alla bankastjóra hinna nýju ríkisbanka til að tryggja að þjónusta við viðskiptavini bankanna sé í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar um frystingu myntkörfulána.

Ríkisstjórnin hefur beint þeim tilmælum til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti afborganir og vexti af myntkörfulánum tímabundið, sé þess óskað, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Ennfremur að ekki verði sérstakrar greiðslu krafist af viðskiptavinum vegna þessa.

Mælst er til að bankarnir krefji viðskiptavini ekki um frekari tryggingar né láti nýtt greiðslumat fara fram vegna tímabundinnar frystingar á myntkörfulánum.

Í ljósi framangreinds er athygli viðskiptavina nýju bankanna vakin á því að þeir geti óskað eftir frystingu á myntkörfulánum, óháð efnahag sínum.

Í tilmælunum var því einnig beint til ríkisbankanna að þeir bjóði viðskiptavinum sínum í greiðsluerfiðleikum upp á sams konar úrræði og Íbúðalánasjóður hefur gert, sbr. ils.is. Þess er vænst að önnur fjármálafyrirtæki veiti sömu fyrirgreiðslu.

Bent skal á að fjármálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögum um stimpilgjöld, þar sem lagt er til að skjöl sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku laganna til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verði undanþegin greiðslu stimpilgjalda.

Viðskiptaráðuneytinu

22. október 2008

Lög um greiðsluaðlögun

22. október 2008 [af vef Neytendasamtakanna]
Krafist betri upplýsinga frá stjórnvöldum
Ástand efnahags- og gjaldeyrismála ríkisins er grafalvarlegt og dylst það engum. Stjórn Neytendasamtakanna kallar eftir skýrari og betri upplýsingum frá stjórnvöldum á þessum óvissutímum. Fréttir af stöðu mála eru af skornum skammti, oft eru þær misvísandi og koma jafnvel frá erlendum fréttaveitum. Þá eru misvísandi fréttir og upplýsingar að berast úr bankakerfinu þar sem stjórnvöld hafa látið einföld tilmæli nægja en ekki bein fyrirmæli til ríkisbankanna um hvernig aðstoð skuli veitt fólki í fjárhags- og greiðsluvanda.

Upplýsa þarf almenning betur um stöðu mála enda ljóst að það skapar ótta og óöryggi hjá heimilum landsins að búa við stöðuga óvissu dögum og vikum saman. Einnig þurfa stjórnvöld að hraða ákvörðunum sínum þannig að sem fyrst sé ljóst hvað bíður heimilanna í raun.
Stjórn Neytendasamtakanna ítrekar að frumvarp til laga um greiðsluaðlögun verði afgreitt strax, ljóst er að slík löggjöf hefur aldrei verið mikilvægari en nú.

Herfilegustu mistök við hagstjórn sem gerð hefur verið frá upphafi lýðveldisins

Gunnar Tómasson
22. október, 2008 kl. 19.11 [eyjan.is]

Árið 1983, ef ég man rétt, var vísitölutrygging launa afnumin með lögum en ekki var hreyft við verðtryggingu lána launþega og annarra. Nokkru síðar hitti ég Albert Guðmundsson þáverandi fjármálaráðherra að máli og spurði hvers vegna verðtrygging lána hefði ekki verið afnumin. Albert sagði að ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hefðu sagt að það væri ekki hægt þar sem verðtrygging lána væri samningsbundin. Líkt og vísitölutrygging launa!

Ég starfaði sem hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á þessum árum. Daginn sem frétt um afnám vísitölutryggingar laun og áframhaldandi verðtryggingu lána kom inn á skrifborð mitt tók ég fram blað og penna og skrifaði bréf til vinar míns Styrmis Gunnarssonar.

Í bréfinu lýsti ég þessum aðgerðum stjórnvalda sem herfilegustu mistökum við hagstjórn sem gerð höfðu verið frá upphafi lýðveldisins. Hér væri tjaldað til einnar nætur eins og myndi síðar koma í ljós.

Verðtrygging er nefnilega skálkaskjól stjórnvalda sem hafa hvorki haft vilja eða getu til að stjórna peningamálum Íslands. Stjórnvalda sem létu það viðgangast að útlán lánakerfisins jukust um 3450% (þetta er ekki ritvilla) áratuginn 1970-1979 og um nánast sama hlutfall á árunum 1980-1989.

Á síðustu 25 árum hefur lífeyrissjóðakerfi landsmanna dafnað í skálkaskjóli stjórnvalda en útlán hafa haldið áfram að vaxa með margföldum vaxtarhraða þjóðarframleiðslu.

Verðtryggingin tryggir það eitt að greiðslubyrði lífeyrissjóðs- og bankalána hafa vaxið í takt við útlánaþensluna en ekki í takt við vöxt þjóðarframleiðslu og rauntekna launþega.

Vitaskuld gat það ekki gengið til lengdar - hvað var þá til ráða?

Jú, verðbótum var bætt við höfuðstól lána - lausn vandans var skotið á frest en launþegum/lántakendum bundinn skuldabaggi sem nú er við það að kollkeyra fjárhagslega stöðu þúsunda heimila.

Loksins, umræða sem skiptir máli

Skuldir heimilanna

Svarthöfði um íslenska drauminn

Allar góðar lýsingar á verðtryggingunni verða settar hér inn.
Verðtryggingin er svo óskýrt og "flókið?" fyrirbæri sem fólk almennt virðist ekki skilja.

hér er Svarthöfði
[dv.is]

Er komin ró á markaðinn?


[af eyjan.is, 21.okt.]

Marinó G. Njálsson
21. október, 2008 - 22:35

Ég spurðist fyrir um þetta hjá mínum banka og fékk eftirfarandi svar þegar ég spurði hvort frystingin næði ekki til allrar greiðslunnar:

“Það er rétt að viðskiptaráðherra sagði á blaðamannafundi í gær að þetta ætti einnig við um vaxtagreiðslur, það er hins vegar ekki í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar sem er að finna hér: http://www.vidskiptaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/2801

Sú leið sem Nýi Landsbankinn býður viðskiptavinum sínum er frestun afborguna í 6 mánuði, en þeir greiði áfram vexti.”

Þegar fréttatilkynningin er skoðuð kemur þetta í ljós:

“Tilmæli frá ríkisstjórn Íslands.

Í ljósi efnahagsástandsins hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins, f. h. skilanefndar Glitnis hf. og Kaupþings hf., og til stjórna Nýja Landsbankans hf. og Nýja Glitnis hf., að frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til ró kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Einnig er þeim tilmælum beint til sömu aðila að fólki í greiðsluerfiðleikum verði boðin sömu úrræði og til staðar eru hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika.

Auk þess er óskum beint til annarra fjármálafyrirtækja að veita sömu fyrirgreiðslu.

Tekið er fram að framangreind tilmæli og óskir hafa ekki áhrif á heimild til handa Íbúðalánasjóði til að taka yfir húsnæðislán sem veitt hefur verið af öðrum fjármálafyrirtækjum og gilda á meðan unnið er að yfirfærslu húsnæðislána til Íbúðalánasjóðs.”

Sökin hér virðist því liggja í því að viðskiptaráðherra er á fullu í að segja eitt við fjölmiðla og þar með landsmenn og beina svo allt öðrum tilmælum til bankanna. Mér finnst bara eðlilegast að bankarnir verði beðnir um að frysta allar greiðslur, þeirra sem þess óska, þar til að þessi mál eru komin á hreint. Síðan legg ég til að einhver hjá ráðuneytinu hlusti vel á öll loforð viðskiptaráðherra og sjái til þess að hann annað hvort standi við orð sín eða leiðrétti þau.

---------------

"Multitasking"

Er ríkisstjórnin svo upptekin við mikilvæga samningagerð að hún hefur ekki tíma til að gera aðra hluti líka!
“Multitasking” er hugtak um það að gera margt á sama tíma.

Hefur ríkisstjórnin ekki fólk í kringum sig sem hún treystir?
Eða eru nálægir ekki hæfir?
Eða er kerfið svona ónýtt að ekki er hægt að samræma það sem bankarnir ætla að gera fyrir heimilin að boði ríkisstjórnarinnar?

http://okurvextir.blogspot.com

Einstaklingum á vanskilaskrá fjölgar

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá að einstaklingum á vanskilaskrá hefur fjölgað um rúmlega 30% frá árinu 2007.

Það kemur fram að það tekur tíma að komast á vanskilaskrá. Hvað er þá framundan? Holskefla?

[eyjan.is]

Bjarnargreiði?

Er hjálpin bara fólgin í því að skuldbreyta íbúðalánunum þannig að bankarnir og Íbúðalánasjóður eignist meira í íbúðinni þinni?

[af vef félagsmálaráðuneytis]

Hægt er að skuldbreyta vanskilum hjá lántakendum Íbúðalánasjóðs. Skuldbreyting felst í því að breyta þeirri fjárhæð sem er í vanskilum í nýtt lán. Lánstími skuldbreytingarlána er 5 - 15 ár. Vextir á skuldbreytingarlánum eru vegnir meðaltalsvextir af þeim lánum sem er skuldbreytt. Skuldbreytingarlán er tryggt með sama veðrétti og það lán sem er í vanskilum eða á síðasta veðrétti í óslitinni veðröð lána Íbúðalánasjóðs. Afborganir, vextir og verðbætur af skuldbreytingarlánum eru greiddar mánaðarlega. Fyrsti gjalddagi er í byrjun þarnæsta mánaðar eftir útgáfudag skuldabréfs.

[af vef félagsmálaráðuneytis–sjá hér]

ASÍ veitir upplýsingar (verkalýðshreyfing sem þið greiðið í)

Alþýðusamband Íslands hefur tekið saman og birtir upplýsingar um fjármál heimilanna í þeim þrengingum sem nú eru til staðar hér á landi og sjá má fyrir. Á heimasíðu samtakanna segir:

Í þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir er óvissa margra heimila mikil varðandi eignir sínar og skuldir og ekki síður varðandi atvinnu og afkomu á komandi mánuðum. Þetta skapar eðlilega mikinn óróa meðal fólks og margir glíma við miklar fjárhagsáhyggjur.
Í þessu upplýsingariti eru tekin saman úrræði sem heimilin geta nýtt sér til að fá yfirsýn yfir fjárhagsstöðu sína og fjallað leiðir sem færar eru efgreiðsluerfiðleikar blasa við.

http://www.asi.is

Tuesday, October 21, 2008

Loksins eitthvað að gerast, en er það nóg?

Af hverju samræma bankarnir ekki skilmálabreytingar húsnæðislána?

vefur Ruv.is—smellið

Ungt fólk neyðist til að kaupa

[úr bloggi Peturs Hafstein Lárussonar]
Þörf á húsaleigumarkaði

Eitt af því, sem skilur að Ísland og nágrannalöndin er það, að hér er ekki til húsaleigumarkaður í venjulegum skilningi þess orðs, öfugt við það, sem gengur og gerist. Þetta leiðir til þess, að ungt fólk neyðist til að kaupa þak yfir höfuðið, eins þótt það hafi ekki efni á því. Að öðrum kosti má það búast við því, að þurfa að flytja á hverju ári, jafnvel milli hverfa, þannig að börnin verði jafn oft að skipta um leikskóla og síðar skóla.

Sjá blogg Peturs Hafstein Lárussonar

Mikið skuldsettar fasteignir á verðtryggðum lánum

[úr leiðara DV, 21.okt. 2008]
..."Stjórnmálamennirnir sváfu ekki á vaktinni. Þeir voru glaðvakandi í því að ýta okkur út í fjárhagslega ánauð sem fylgir því að eiga mikið skuldsetta fasteign á verðtryggðu láni."

Sjá dv.is

Monday, October 20, 2008

Við þurfum að bjarga hagsmunum almennings

"Við erum að ganga inn í harðan og erfiðan vetur"
sagði varaformaður Samfylkingar í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld 20.okt.

og

"Við þurfum að bjarga hagsmunum almennings"
sagði hann í Kastljósi.

Hvað með frystingu lána?

Beðið er eftir upplýsingum um aðstoð við fjölskyldur sem eiga ekki fyrir greiðslum húsnæðislána.

Ef gestir vita eitthvað um þetta mál, vinsamlegast látið vita.

Sunday, October 19, 2008

Nei. Dagblað

Nei. Dagblad—tengill á síðu

Reuter segir 2.000 manns á fundinum á Austurvelli

Reuter segir 2.000 manns hafa verið á fundinum á Austurvelli laugardaginn 18.okt.
Mogginn segir að skv. tölum lögreglunnar hafi verið u.þ.b. 500.
Munar soldið miklu!

Saturday, October 18, 2008

Ekki nóg að frysta verðtrygginguna!

Frysting verðtryggingar er hugmynd frjálslynda formannsins.
Það er ekki nóg að frysta verðtrygginguna, það á að afnema hana!


Friday, October 17, 2008

Austurvöllur, laugardagur kl. 3. Við mótmælum öll

http://www.nyirtimar.com


Nú er tíminn

Við mótmælum öll – Hittumst á Austurvelli á laugardag kl. 15. Vertu þáttakandi, ekki þolandi. Hvetjið alla sem ykkur eru nærri til að mæta líka. Við fáum kannski bara þetta eina tækifæri. (Dagskrá verður kynnt á morgun föstudag).

Senda á vini og kunningja

Hefur þú hætt að borga?

Reynslusögur óskast

Rósa á eyjan.is:

Hringið í launagreiðandann og látið leggja launin inn á ferska sparisjóðsbók sem hefur engar skuldfærslur. Þá hafið þið ein aðgang að laununum. Drífa sig áður en líður nær mánaðamótum. Opinberir starfsmenn: Fjársýsla ríkisins.

Á fólk að hætta að greiða af lánunum?

eyjan.is => Pétur Tyrfingsson

úr umræðu á eyjan.is

Hér er svar mitt á málefnin.com fyrir stuttu síðan við spurningunni:

Myndir þú lána peninga án verðtryggingar?

Svar:

Þetta er mjög góð spurning - og svarið er einfaldlega nei!

En vitaskuld er það ekki viðunandi svar með hliðsjón af fjármagnsþörf atvinnulífs og yngri kynslóðar vegna náms og húsnæðis.

Verðtrygging er - og hefur alltaf verið - skálkaskjól stjórnvalda sem hafa ekki stjórnað peningamálum þjóðarinnar af viti um áratuga skeið.

Sbr. 3450% aukningu útlána lánakerfisins á tímabilinu 1980-1989!

Stjórnvöld sem þurfa skálkaskjól verðtryggingar verðskulda ekki traust og stuðning þjóðarinnar.

***

M.ö.o., verðtrygging er smjörklípa vanhæfra stjórnvalda.

-----------

Þröstur á eyjan.is:
Hringdi einmitt í eitt af þessum bílalánafyrirtækjum og sagði þeim að ég myndi ekki borga af bílnum mínum meðan þessi vitleysa væri í gangi með krónuna! Konan sagðist skilja það og sagði mér að hafa samband um mánaðarmótin en sagði svo við mig að ef ég myndi hætta alfarið að borga af bílnum mínum þá myndi það á endanum ganga á húsið mitt! Ég varð hugsin í smá stund og horfði svo á hana stíft og sagði pent! ” Þú mátt alveg fá húsið mitt, ég á hvort sem er ekkert í því ” og gekk svo út.

-----------
Gunnar á eyjan.is:

Myndir þú lána peninga án verðtryggingar?

Svar:

Þetta er mjög góð spurning - og svarið er einfaldlega nei!

En vitaskuld er það ekki viðunandi svar með hliðsjón af fjármagnsþörf atvinnulífs og yngri kynslóðar vegna náms og húsnæðis.

Verðtrygging er - og hefur alltaf verið - skálkaskjól stjórnvalda sem hafa ekki stjórnað peningamálum þjóðarinnar af viti um áratuga skeið.

Sbr. 3450% aukningu útlána lánakerfisins á tímabilinu 1980-1989!

Stjórnvöld sem þurfa skálkaskjól verðtryggingar verðskulda ekki traust og stuðning þjóðarinnar.

***

M.ö.o., verðtrygging er smjörklípa vanhæfra stjórnvalda.
--------------------
Arnar á eyjan.is:
Tek undir þetta. Menn ættu að hætta að borga af öllum lánum, láta þetta kerfi eins og það er í dag fara til helvítis. Það þýðir reyndar að við þurfum að sætta okkur við að hætta að notast við peninga sem gjaldmiðil í smá stund, eða allavegana krónur. Vöruskipti og sjálfbærni kæmi líklega í staðin. Fyrirtæki landsins rúlla öll í kjölfarið. Anarkí af bestu sort. Vona bara að NATO fari ekki að senda inn einhverja helvítis soldáta til að koma reglu á allt saman.
-----------
Rósa á eyjan.is:

Hringið í launagreiðandann og látið leggja launin inn á ferska sparisjóðsbók sem hefur engar skuldfærslur. Þá hafið þið ein aðgang að laununum. Drífa sig áður en líður nær mánaðamótum. Opinberir starfsmenn: Fjársýsla ríkisins.

Thursday, October 16, 2008

Er þetta fólk ekki í lagi?

Heimildir felldar niður, veða krafist —> eyjan.is

Þjóðfélagslegt óréttlæti sem tengist geysiháum bankavöxtum

Grein eftir Andrés Magnússon geðlækni

Takmörkuð og mjög tempruð umræða
um þjóðfélagslegt óréttlæti sem tengist geysiháum bankavöxtum.


Vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru nálægt 15%, en í nágrannalöndum okkar 4 til 5%, líka í bönkum sem íslendingar hafa keypt í nágrannalöndunum.

Munurinn er ca 10% á ári, og þessi vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna hefur verið til staðar í mörg ár eða áratug. Láta mun nærri að hver fjölskylda á Íslandi skuldi að meðaltali 10 milljónir í húsnæðislán. 10% af 10 milljón krónum er ein milljón krónur á ári, það er sú upphæð sem við greiðum aukalega fyrir að vera í viðskiptum við íslenska en ekki erlenda banka.

Það þýðir að hver íslensk fjölskylda greiðir að meðaltali um eina milljón króna á ári algerlega að óþörfu til íslenskra banka.

alla greinina má hlaða niður af þessari síðu

Greiðsluerfiðleikar / Breyttar aðstæður

[af vef félagsmálaráðuneytis]

Allir geta lent í erfiðleikum með fjármálin og fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Óvænt atvik geta komið upp sem breyta upphaflegum forsendum. Mikilvægt er að leita strax aðstoðar áður en vanskil verða veruleg. Bankar, sparisjóðir, Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna ásamt Íbúðalánasjóði veita ráðgjöf um úrlausn vandans.


tengill félagsmálaráðuneytis

Wednesday, October 15, 2008

Of veik úrræði?

Á sama tíma og verð hækkar á nauðsynjavöru eru þessi úrræði of veik:

[af vef félagsmálaráðuneytis] http://www.felagsmalaraduneyti.is
---------
Úrræði efld
...Auk þeirra ákvarðana sem hér hefur verið lýst og hafa þegar tekið gildi mun félags- og tryggingamálaráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem heimilar Íbúðalánasjóði að lengja lán viðskiptavina sinna um allt að 30 ár í stað 15 ára áður og jafnframt að veita skuldbreytingarlán vegna greiðsluerfiðleika til allt að 30 ára í stað 15 ára áður. Einnig verða útfærðar reglur vegna mögulegrar útleigu Íbúðalánasjóðs á því húsnæði sem stofnunin kann að eignast á nauðungaruppboðum til fyrri íbúa, hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu einstaklinga eða leigufélaga. Slík leiga yrði ávallt í takmarkaðan tíma í samræmi við hagsmuni beggja aðila.
---------

Greiðslufrestur bankanna



Þjóðfélagslegt óréttlæti þrífst í lélegu upplýsingaflæði til almennings

(Upphaf greinar Andrésar, skjalið er í heild fyrir neðan.)

Takmörkuð og mjög tempruð umræða um þjóðfélagslegt óréttlæti
sem tengist geysiháum bankavöxtum.

Vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru nálægt 15%, en í nágrannalöndum okkar 4 til 5%, líka í bönkum sem íslendingar hafa keyp í nágrannalöndunum. Munurinn er ca 10% á ári, og þessi vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna hefur verið til staðar í mörg ár eða áratug. Láta mun nærri að hver fjölskylda á Íslandi skuldi að meðaltali 10 milljónir í húsnæðislán. 10% af 10 milljón krónum er ein milljón krónur á ári, það er sú upphæð sem við greiðum aukalega fyrir að vera í viðskiptum við íslenska en ekki erlenda banka. Það þýðir að hver íslensk fjölskylda greiðir að meðaltali um eina milljón króna á ári algerlega að óþörfu til íslenskra banka. Ef tekið er inn í reiknisdæmið vaxtavextir, lausaskuldir og skuldir verslunarinnar í íslenskum krónum (sem velt er yfir á neytendur) þá má sennilega tvöfalda þessa upphæð. En það sem er svo sérstaklega sárt við þetta er að það er nánast engin umræða um þessa áþján. Það er kannske ekkert undarlegt þegar þess er gætt að afar fáir aðilar ráða fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi, og þessir aðilar eru nátengdir fjármálalífi landsins. Hví ættu þeir að skrifa neikvætt um viðskiptalífið sitt, það myndi kannske leiða til þess að hlutabréfaverð lækkaði eða að almenningur myndi ekki samþykkja að borga hina háu bankavexti sem er undirstaða “hinnar glæstu útrásar”?


Á þessari vefsíðu er hægt að sækja greinina eftir Andrés Magnússon, geðlækni.

Greinin birtist í mogganum ca í febrúar sl.

Monday, October 13, 2008

Hvað varð um þessa löggjöf?

Vísir.is, 12. apr. 2007 – Vill löggjöf um samningsrétt skuldara

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra [12.apríl 2007] vill skoða kosti þess að setja sérstaka löggjöf um úrræði fyrir fólk sem á í greiðsluerfiðleikum líkt og gert hefði verið annars staðar á Norðurlöndum.

Í ávarpi á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í morgun sagði Magnús að mikilvægt væri að tryggja skuldurum samningsrétt, rétt til að halda eftir ákveðnu lágmarki tekna til að geta séð sér farborða og heimilisrétt sem tryggði húsnæði sem uppfyllti lágmarkskröfur.

Sagðist hann hafa rætt þessar hugmyndir við viðskiptaráðherra og hann hefði skipað nefnd til að vinna drög að frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Nefndin ætti að hafa hliðsjón af norrænni löggjöf og reynslu í þessum efnum.

Sagði Magnús löggjöf um skuldaaðlögun í hinum norrænu ríkjunum hafa marga kosti kosti í för með sér. Skuldaranum væri gert kleift að standa í skilum og hjálpað til við að komast úr erfiðleikunum.

Jóhanna hvernig gengur?

Hér verður fylgst með því hvað félagsmálaráðherra ætlar að gera varðandi greiðsluaðlögun fyrir skuldsett heimili.