Wednesday, April 01, 2009

Flokkakerfi komið að fótum fram

Góð kjör á lánum til VBS og Saga Capital eru forsenda þess að skuldin fáist endurgreidd. Með góðum kjörum er verið að gera fyrirtækjunum kleift að ráða við afborganir af lánunum. Þetta segir fjármálaráðherra.
Því gildir ekki hið sama um skuldsettar íslenskar fjölskyldur? Er það vegna þess að kosningar eru framundan og minnihlutastjórnin telur sig ekki hafa umboð þjóðarinnar til að gera þær breytingar á kerfinu sem nauðsynlegt er?

Er félagshyggjuflokkunum treystandi?
Er hægt að treysta þessum flokkum eftir kosningar ef þeir segja ekki frá hugmyndum sínum núna?
Ætla félagshyggjuflokkarnir að leysa vanda tugþúsunda íslenskra fjölskyldna sem hafa eingöngu bankana sem ráðgjafa? Sem ráðleggja fjölskyldum að bíða á meðan útbúnir eru pappírar um að bankinn eignist heimilið. Af hverju heyrum við ekkert um hvað eigi að gera við allar tómu íbúðirnar? Jú, ný lög eru sett svo lífeyrissjóðirnir megi eignast fasteignir!
Afnumið er ábyrgðarmannakerfi lána en það gildir bara fyrir framtíðina, ekki fortíðina og gagnast því ekki fjölskyldunum sem eru að missa allt jafnvel vegna ábyrgða fyrir aðra.

Mega Íslendingar ekki byrja upp á nýtt?
Breytingar á gjaldþrotalögunum breyta engu fyrir ofskuldsettar fjölskyldur. Þær hafa ekki þann valkost að fara í gjaldþrot og byrja upp á nýtt. Á Íslandi leyfist fyrirtækjum að byrja upp á nýtt en ekki einstaklingum. Skulduga Íslendinga má hundelta alla æfi með því að vekja upp kröfur. Í nágrannalöndum okkar er skuldsett fólk verndað af neytendalögum svo ekki sé hægt að binda það í þrældóm ævina út eins og hér er.
Ekkert er gert til bjargar illa stöddum fjölskyldum. Í ríkisstjórnarflokkunum er sama fólkið, að nota sömu verkfærin og setti þjóðina í þennan vanda, og þorir hvorki né getur hugsað á nýjum nótum.

Nýrra hugmynda er þörf
Niðurfelling skulda og greiðsluaðlögun ætti ekki einungis að vera fyrir valin fyrirtæki, líka fyrir fjölskyldurnar í landinu.
Borgarahreyfingin vill raunverulegar úrbætur.

Margrét Rósa Sigurðardóttir, vefritstjóri: www.borgarahreyfingin.is
(greinin birtist 1.apríl í Fréttablaðinu)

No comments: